Ríkið fjölgi opinberum störfum á Suðurnesjum
– mikil þörf fyrir uppbyggingu nýrra starfa á svæðinu
Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum leggja áherslu á mikilvægi þess að nauðsynleg skilyrði verði sköpuð til uppbyggingar öflugs atvinnulífs á Suðurnesjum. Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem haldinn var í Vogum á Vatnsleysuströnd um helgina.
Aðalfundurinn hvetur ríkisvaldið til að leggja sitt af mörkum í samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu svo aðstæður fyrir þau fyrirtæki sem vilja hasla sér völl á Suðurnesjum séu til staðar.
„Auk almennra aðgerða telur aðalfundurinn nauðsynlegt að ríkisvaldið gæti jafnræðis þannig að iðnaðar- og hafnarsvæðið í Helguvík njóti sambærilegs stuðnings og verið er að veita framkvæmdum á Bakka við Húsavík með sérstakri löggjöf,“ segir í ályktuninni.
Ríkisvaldið er sérstaklega hvatt til að huga að flutningi opinberra stofnana og með fjölgun opinberra starfa til Suðurnesja, sem lið í þessari ráðstöfun. Jafnframt er ríkisvaldið hvatt til að huga vel að allri áætlanagerð m.a. uppbyggingu raforkumannvirkja, samgangna og fl. í tengslum við framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum.
Atvinnuleysi á Suðurnesjum er mest á landsvísu því er mikil þörf fyrir uppbyggingu nýrra starfa á svæðinu.
Fundurinn krefst þess að ríkisvaldið leggist á árarnar með sveitarstjórnarmönnum og öðrum hagsmunaaðilum og stuðli að því að ný atvinnutækifæri verði til á Suðurnesjum.