Ríflega fjórðungur með laun undir 250 þúsund krónum
Ríflega fjórðungur vinnandi fólks í Reykjanesbæ er með laun undir 250 þúsund krónum. Könnun sem Atvinnu- og hafnasvið í samstarfi við fjármálaskrifstofu Reykjanesbæjar er að vinna sýnir að 65% þeirra sem eru á aldrinum 18-67 ára voru við vinnu í febrúar sl. Af þessum 65% vinnandi bæjarbúum eru 26,6% með laun undir 250 þúsund krónum.
„Hér er um að ræða íslenskt verkafólk, sem oftast hefur eingöngu lokið grunnskólanámi“, segir Árni Sigfússon bæjarstjóri en þessar upplýsingar voru kynntar á íbúafundi með bæjarstjóra í gærkvöldi.
Á fundinum kom fram að að meðallaun verkafólks í álveri Norðuráls á Grundartanga eru á milli 5-600 þúsund krónur.
„Við stöndum frammi fyrir að byggja upp verkefni sem getur tvöfaldað launakjör verkafólks hér. Það hefur að auki veruleg áhrif á skatttekjur sveitarfélaga. Meðal skatttekjur sem Fjarðarbyggð fær frá hverjum íbúa árið 2012, þar sem Fjarðaál er staðsett, eru 576 þúsund krónur á íbúa. Í Reykjanesbæ eru meðal skatttekjur sama ár um 390 þúsund krónur á íbúa.