Reynt að sporna við utanvegaakstri
Utanvegaakstur vélhjólamanna í Reykjanesfólkvangi er sívaxandi vandamál sem erfitt hefur verið að uppræta. Vinnuhópur eða átaksteymi á vegum umhverfisráðuneytisins hefur undanfarið unnið að tillögum til úrlausnar. Þeirri vinnu hefur miðað vel og mun hópurinn skila þeim af sér innan tíðar.
Að sögn Óskars Sævarssonar í Grindavík, sem sæti á í nefndinni, er vandamálið ekki eingöngu bundið við fólkvanginn. Hann segir mikið hafa borið á akstri torfæruhjóla á gömlu þjóðleiðunum vestar á Reykjanesskaganum sem skilgreindar hafa verið sem gönguleiðir. Þær hafa verið stikaðar og settar á gönugleiðakort. Einnig hafa Ferðamálasamtök Suðurnesja gefið út tvo bæklinga um þessar leiðir og tveir aðrir eru í vinnslu. Akstur vélhjóla á þessum leiðum er klárlega bannaður.