Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reyndu að svíkja út verulegar fjárhæðir á stolin greiðslukort
Fimmtudagur 18. janúar 2007 kl. 23:16

Reyndu að svíkja út verulegar fjárhæðir á stolin greiðslukort

Svikahrappar með stolin greiðslukort reyndu að fá hótelstjóra Hótels Keilis í Reykjanesbæ til að taka út verulegar fjárhæðir af greiðslukortunum og senda fjárhæðirnar með peningasendingu til viðtakanda á Bretlandseyjum. Þorsteinn Lár Ragnarsson, hótelstjóri, sá hins vegar í gegnum ráðabruggið.

Svikahrapparnir ætluðu að leika þann leik að fá hótelið til að taka út fjárhæðir fyrir gistingu og að auki verulegar fjárhæðir sem sagðar voru til þess að greiða fyrir flug og bílaleigubílar. Þá peninga átti hótelið að senda í peningasendingu erlendis. Einnig reyna þessir óprúttnu aðilar að afpanta gistinguna á hótelinu eftir að kortafærsla hefur átt sér stað og fá hótelið til að senda sér þá peninga einnig.

Annar aðilinn notaði þá ástæðu að hópurinn sem var á hans vegum hafi lent í alvarlegu bílslysi þar sem m.a. fjórir aðilar hafi látist. Fékk Þorsteinn Lár, hótelstjóri, sendar tvær myndir því til staðfestingar en myndirnar voru hins vegar falsaðar og hafði verið hlaðið niður af Internetinu.

Þorsteinn Lár kannaði kortin hjá kortafyrirtækjum og komst að því að um var að ræða stolin greiðslukort sem hann hefði átt að gera upptæk. Hins vegar hafði hann eingöngu númer þeirra á tölvupósti og því erfitt að ná í skottið á svikahröppunum.

Hótel Keilir opnar á næstu dögum en hefur opnað fyrir bókanir. Það kom hótelstjóranum nokkuð á óvart að strax á fyrstu dögunum hafi hann fengið tvær tilraunir sem þessar til svika. Hann sagði að hótelið væri kynnt sem nýtt hótel á vefnum og hugsanlega reyni glæpamenn sem þessir að svíkja fé út úr nýjum aðilum á markaði sem væru berskjaldaðir fyrir svona svikum.

Aðilar í ferðaþjónustu bænda hafa lent í svikahröppum sem þessum, enda reyndast þeir mjög sannfærandi og beita öllum ráðum til að ná út fjármunum á stolin greiðslukortanúmer.

Sjá einnig í Vefsjónvarpi Víkurfrétta.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024