Reyndi að villa á sér heimildir
Annar á hlaupum undan lögreglu
Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af um helgina notaði nafn og kennitölu annars aðila, þegar hann var beðinn um að gera grein fyrir sér. Ökumaðurinn, kona á fertugsaldri, hafði áður verið svipt ökuréttindum. Hún gaf þrisvar upp nafn og kennitölu annars einstaklings, en sá svo að sér og sagði sannleikann. Þar sem konan þótti bera merki fíkniefnaneyslu var hún færð á lögreglustöð.
Þá hafði lögregla afskipti af öðrum ökumanni, karlmanni um fertugt, sem einnig ók sviptur ökuréttindum. Þegar hann varð var við að lögregla veitti honum athygli stöðvaði hann bifreiðina fyrir framan fiskvinnsluhúsnæði, hentist út, tók til fótanna og hvarf inn í húsnæðið. Lögreglumenn hlupu hann uppi og viðurkenndi hann þá að vera sviptur ökuréttindum ævilangt.
Loks var karlmaður á fertugsaldri stöðvaður vegna gruns um að hann æki undir áhrifum fíkniefna. Hann viðurkenndi neyslu á kannabis sem sýnatökur á lögreglustöð staðfestu svo.