Reyndi að smygla tug þúsunda sterkra verkjalyfja til landsins
Flugfarþegi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hugðist smygla tugi þúsunda sterkra verkjataflna inn í landið. Farþeginn var að koma frá Spáni og hafði komið töflunum, fyrir í kössum í ferðatöskum, en þær voru 21.237 stykki af 22 tegundum sterkra verkjalyfja.
Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins en gert er ráð fyrir því að lyfin hafi verið ætluð til sölu hérlendis. Viðkomandi einstaklingur hefur komið við sögu lögreglu áður.
Tollstjóri vill af þessu tilefni benda á upplýsingar frá embætti Landlæknis þar sem fram hefur komið að aukning hefur orðið á dauðsföllum vegna misnotkunar sterkra verkjalyfja undanfarin ár. Samkvæmt dánarmeinaskrá létust 13 af ofnotkun slíkra lyfja árið 2014, 14 manns árið 2015 og 17 á síðasta ári.