Reyna björgun á miðnætti
– Lára Magg ÍS sökk í Njarðvíkurhöfn í síðustu viku
Reynt verður að koma Láru Magg ÍS 86 á flot á miðnætti í kvöld eða í fyrramálið. Báturinn sökk í höfninni í Njarðvík í síðustu viku.
Það er Köfunarþjónusta Sigurðar Stefánssonar sem hefur það verkefni að bjarga bátnum úr höfninni. Lára Magg ÍS hefur legið við festar í Njarðvíkurhöfn mánuðum saman en sjálfvirk dæla hafði séð um að dæla úr skipinu og halda því á floti. Þegar dælan hætti að virka sökk báturinn á skömmum tíma.
Sigurður sagði í samtali við Víkurfréttir að báturinn verði réttur við á lágflóði í kvöld og svo verði reynt að dæla úr honum og láta hann fljóta upp. Takist það ekki verður notast við krana til að lyfta bátnum.