Reyna að hefta hraunrennsli niður í Nátthaga
Nú er unnið að gerð varnargarða við hraunjaðarinn á Fagradalsfjalli upp af Nátthaga. Stórvirkar vinnuvélar, jarðýta og beltagrafa, hlaða nú upp varnargarðinum.
Varnargörðunum við hraunjaðarinn er ætlað að hefta hraunrennsli niður í Nátthaga, þaðan sem nokkuð greið leið er niður á Suðurstrandarveg og að Ísólfsskála.
Björn Oddsson jarðeðlisfræðingur hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra var gestur fundar bæjarráðs Grindavíkur á dögunum til að fara yfir stöðuna varðandi eldgosið í Geldingadölum. Ljóst er að gosið er mjög vinsæll áfangastaður og enginn veit með nokkurri vissu hversu lengi það mun standa. Verða það nokkrar vikur? Mánuðir? Jafnvel ár?
Björn lagði fram á fundinum með bæjarráði minnisblað frá Verkís, Eflu og Háskóla Íslands um prófanir á hraunrennslisvörnum. Bæjarráð Grindavíkur leggur mikla áherslu á að þær aðstæður sem nú eru til staðar í Meradölum verði tafarlaust nýttar til að framkvæma prófanir á hraunrennslisvörnum að veittum tilskildum leyfum til framkvæmdanna.
Myndirnar með fréttinni eru skjáskot af vefmyndavél RÚV á Langahrygg sem sýna framkvæmdirnar í morgun.