Reykur vegna mannlegra mistaka
Mannleg mistök urðu til þess að reyk lagði frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík um klukkan 10 í morgun. Síðastliðna nótt var of lítið hráefni sett inn á ofn verksmiðjunnar. „Í morgun var svo hráefni matað aftur inn á ofninn. Hráefnið er rakt og kalt þegar það er sett inn á ofninn og þarf að hitna hægt þannig að rakinn fari úr því. Þar sem of lítið hráefni var í ofninum var yfirborð þess heitara en við eðlilegar aðstæður. Afleiðingarnar voru þær að kalda og raka hráefnið hitnaði of hratt og brann að hluta þannig að mikill reykur myndaðist,“ segir Kristleifur Andrésson, stjórnandi öryggis- og umhverfismála hjá fyrirtækinu. Afsogið af ofninum hafði ekki undan og því slapp reykur út frá verksmiðjunni. Vonast er til að komist verði fyrir reykinn seinni partinn í dag. Kristleifur segir þann reyk lyktarlausan.
Umhverfisstofnun bárust 58 ábendingar um lyktarmengun í Reykjanesbæ í gærkvöld og í morgun. Kristleifur segir enga skýringu enn hafa fundist á þeirri lykt. Lyktin hafi ekki fundist á þeim tíma við verksmiðjuna en sérfræðingar verksmiðjunnar vinni hörðum höndum að því að finna upptök lyktarinnar.