Reykjanesvitavegur aðkallandi fyrir ferðaþjónustuna
Bæjarráð Reykjanesbæjar beinir þeirri eindregnu ósk til samgönguráðherra og Vegagerðar ríkisins að Reykjanesvitavegur verði byggður upp með bundnu slitlagi hið fyrsta. Í ályktun bæjarráðs frá fundi hennar í gær segir að ástand vegarins hafi verið mjög bágborið undanfarin ár og ljóst að hann beri ekki þá þungu og miklu umferð sem þar er árið um kring.
Áætlað er að um 150 þúsund ferðamenn heimsæki svæðið við Reykjanesvita og Valahnjúk árlega. Bæjarráð Reykjanesbæjar segir að hér sé um mjög aðkallandi mál að ræða fyrir ferðaþjónustuna og því afskaplega brýnt að gripið verði til aðgerða strax.
---
VFmynd/Ellert Grétarsson - Horft yfir Valahnúk til Reykjanesvita.