Reykjanesvirkjun: Tilboð í gufuhverfla opnuð í febrúar
Send hafa verið útboðsgögn til sjö erlendra fyrirtækja þar sem óskað er eftir tilboðum í gufuhverfla til framleiðslu 80 til 100 MW vegna fyrirhugaðrar virkjunar Hitaveitu Suðurnesja á Reykjanesi. Að sögn Alberts Albertssonar aðstoðarforstjóra Hitaveitu Suðurnesja er gert ráð fyrir að tilboð frá fyrirtækjunum verði opnuð í febrúar. Einnig er verið að vinna að leyfisveitingum fyrir virkjunina og segir Albert að búist sé við því að öll leyfi verði komin á hreint í febrúar og að þá komi í ljós hvort af virkjuninni verði.
Í september á síðasta ári ákvað Landsvirkjun að fresta Norðlingaölduveitu og í kjölfarið tóku Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur höndum saman um að útvega Norðuráli orku vegna stækkunar álversins á Grundartanga. Gert er ráð fyrir að kostnaður við virkjun á Reykjanesi sé um 8 til 10 milljarðar króna.
VF-ljósmynd/HBB: Hitaveita Suðurnesja vinnur nú að borunum á Reykjanesi vegna fyrirhugaðrar virkjunar.