Reykjanesvirkjun bætir við þriðju vélinni
Nú er unnið að því að bæta við þriðju vélinni í orkuverinu á Reykjanesi en henni verður ætlað að framleiða 50 megawött til viðbótar við þau 100 sem virkjunin framleiðir í dag.
Á síðasta ári voru boraðar tvær varaholur við Reykjanesvirkjun og eru þær taldar geta gefið um 15 megawött. Á þessu ári hefur þriðja holan verið boruð og nú í gufupúðann sem hefur myndast. Sú hola er talin geta gefið vel yfir 10 MW, segir á heimasíðu HS. Þar kemur fram að borun annarrar holu í gufupúðann sé að hefjast og takist hún jafn vel sé gufuöflun fyrir vélina langt komin. Í síðustu viku fóru fram viðræður við framleiðanda túrbínanna. Er gert ráð fyrir að túrbínan komi til landsins fyrir árslok 2009 og geti þá hafið framleiðslu á fjórða ársfjórðungi 2010.
Þá vinnur HS hf. að því að nýta frekar afallsvökva á Reykjanesi. Í affallið fara 6 – 700 l/sek af rúmlega 200°C heitum vökva. Hitaveitan er í samstarfi við tvö erlend sérfræðifyrirtæki um að þróa varmaskipta þannig að unnt verði að nýta allt að 50 MW úr vökvanum. Er þess vænst að á haustdögum liggi fyrir endanleg útfærsla á nýtingu þessarar varmaorku, segir á heimasíðu HS.
Mynd/elg: Reykjanesvirkjun.