Reykjanesmynd Olgeirs á Times Square
Mynd frá Reykjanesinu eftir áhugaljósmyndarann Olgeir Andrésson var í gær valin mynd dagsins á stóra ljósaskiltinu á Times Square í New York í Bandaríkjunum.
Myndin var því sýnd á fimm mínútna fresti á þessum fræga og fjölfarna stað. Einnig komst hún í almanak Times Square Gallery, sem skoða má á netinu.
„Ég sendi myndina fyrir um mánuði og var búinn að steingleyma því að ég hefði sent hana," segir Olgeir um þennan heiður.
Þess má geta að öðrum íslenskum áhugaljósmyndara, Guðrúnu Gísladóttur, hlotnaðist þessi sami heiður í október.
Frá þessu er greint á Visir.is
Myndin var tekin seint í maí við Reykjanesvita og lét Olgeir ljósop vélarinnar liggja opið í hálfa mínútu.