Reykjanesið spennandi staður fyrir fuglaskoðara
Reykjanesið er vinsæll staður hjá fuglaskoðurum. Sérstaklega eru Garðskagi og Sandgerði vinsælir staðir og eru erlendir fuglaskoðarar tíðir gestir á þessum stöðum þar sem þeir liggja með myndavélar og sjónauka og fylgjast með fuglalífinu. Í gærkvöldi voru nokkrir fuglaskoðarar á Garðskaga og fylgdust þeir spenntir með fuglalífinu.
Björn Arnarson fuglaskoðari á Höfn í Hornafirði segir að Reykjanesið sé mjög spennandi staður fyrir fuglaskoðara. „Það er mjög mikið fuglalíf í Sandgerði og við Garðskagavita. Í Sandgerði eru mjög góðar tjarnir og góðar sjávarleirur og þar er fuglalífið sérstaklega fjölbreytt,“ segir Björn en nýlega fannst í Sandgerði kvöldlóa og er það í fyrsta sinn sem verður vart við hana á Íslandi. „Við Garðskaga er einnig mjög gott að skoða sjófugla og við fuglaskoðarar rekumst oft á sjaldgæfa fugla á þessum stöðum. Fyrir um átta árum sá ég í fyrsta sinn á Íslandi amerískan spörfugl sem nefndur hefur verið grímuskríkja,“ segir Björn en hann var við fuglaskoðun á Reykjanesi fyrir um 10 dögum síðan og heimsótti hann þá Sandgerði, Garðskagavita og Reykjanesvita. Björn segir fáa fuglaskoðara á Reykjanesi. „Ja, við vitum um nokkra sem eru að skoða fugla en við auglýsum eftir ofvirkum fuglaskoðara á Reykjanesi,“ sagði Björn í samtali við Víkurfréttir. Björn er einn af aðstandendum vefsíðu fuglaáhugamanna á slóðinni www.fuglar.is
Myndir: Fuglaskoðarar við Garðskagavita í gærkvöldi. VF-ljósmyndir/Héðinn Eiríksson.