Reykjaneshöllin og umhverfi hennar
Reykjaneshöllin er staðsett við einbýlishúsabyggð við Krossmóa annars vegar og við nýjan Flugvallarveg hinsvegar. Það er lagt í landið með aðalinngang mót austri og tengist þannig framtíðar miðbæjarsvæðinu. Aðkoma akandi og gangandi er bæði frá nýjum Flugvallarvegi og frá Krossmóum. Þannig skapast möguleiki á samnýtingu bílastæða fyrir íþróttahúsið og miðbæjarstarfsemina. Bílastæðin næst húsinu eru malbikuð að hluta sbr. útboðslýsingu, en hinn hlutinn með malaryfirborði. Svæði við aðalinngang og aðalstígur eru hellulögð. Að öðru leyti býður lóðin upp á fjölbreyttan trjágróður ásamt grasflötum og malarbornum göngustígum.Norðan við húsið er gert ráð fyrir svæði sem nýta má fyrir þrektæki, tjaldsvæði, útigrilli eða aðra starfsemi að sumarlagi Umhverfið og húsið sjálft er mótað með hliðsjón af aðliggjandi einingum í næsta umhverfi. Tyrfður jarðvegur er nýttur til að mynda skýlandi manir að umferðargötum og til að þekja langhliðar hússins. Burðarvirki aðalhúss er stálgrind, þak einangrað með steinull og klætt með pappa. Langveggir og sökkulveggir eru steinsteyptir, langveggir einangraðir að utan og fargaðir. Gaflar eru úr stáli, klæddir með ljósri málmklæðningu að hluta. Álagsfletir við anddyri eru varðir með steinuðum ímúr, dökkum á lit.Þjónustuhús er uppbyggt á sama hátt og aðalbygging, nema gólf eru steinsteypt og anddyri flísalagt. Útveggir eru klæddir með sterkum viði, sem gránar við veðrun og er því viðhaldsfrír. Innanhússfrágangur er að öðru leyti hefðbundinn hvað varðar efnisval í innveggjum, hurðum, búningsaðstöðu o.þ.h. Á 2. hæð þjónustuhúss eru samkomusalur, fundarherbergi og aðstaða fyrir starfsmenn.