Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 22. október 1999 kl. 00:04

REYKJANESHÖLLIN FOKHELD

Rúnni Júll vítaspyrnukóngur í Reykjaneshöllinni Reykjaneshöllin, hið nýja fjölnota íþróttahús Reykjanesbæjar varð fokhelt sl. laugardag og var „opið hús“ af því tilefni með tilheyrandi fjöri. Rúnar Júlíusson, poppari og fyrrverandi knattspyrnumaður sigraði í fyrstu vítaspyrnukeppni sem haldin var í húsinu en keppendur voru Ellert Schram, forseti Íþróttasambands Íslands og Eggert Magnússon frá Knattspyrnusambandinu, Gunnar Oddsson, knattspyrnumaður og varabæjarfulltrúi og Ólafur Thordersen, Njarðtaksmaður og bæjarfulltrúi. Í markinu var enginn annar en Ellert Eiríksson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, klæddur í „súlubol“. Ekki gekk markvarslan vel í full vöxnu markinu en þá tók bæjarstjórinn til sinna ráða og lét setja lítið mark inn í það stóra. Þá gekk mönnum ver að skora nema Rúnari Júlíussyni og hampaði hann sigri eins og fyrr segir og fékk blómvönd að launum. Einn á móti fjöldanum! Ellert Eiríksson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ var fyrstur til að verja markið í Reykjaneshöllinni en það er nafnið á fjölnotahúsinu nýja. Hér reynir hann að verja skot frá Eggert Magnússyni formanni KSÍ. Það var hins vegar rokkarinn Rúnar Júl. sem sigraði í vítakeppninni. Húsið var sýnt bæjarbúum sl. laugardag í tilefni af því að það var fokhelt. VF-mynd: Páll Ketilsson Fjöldi fólks mætti í nýja húsið á laugardaginn og skoðaði þetta gríðarmikla mannvirki sem risið hefur við Krossmóa, í nágrenni Nikkel-svæðisins. Húsið verður tekið í notkun 18. febrúar kl. 14 en starfsmenn Verkafls hf., dótturfyrirtækis Íslenskra aðalverktaka munu nota tímann fram að því til að klára það sem eftir er en það er mest megnis innivinna . Heildarflatarmál byggingarinnar er 8,344 fermetrar en í því verður knattspyrnuvöllur í fullri stærð með gervigrasi af fullkomnustu gerð. Gert er ráð fyrir áhorfendastæðum fyrir 1000-1500 manns.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024