Reykjaneshöfn lét farga 130 tonnum af rusli af lóðum í Helguvík
Reykjaneshöfn lét farga um 130 tonnum af rusli ýmiskonar sem eigendur vitjuðu ekki í kjölfar auglýsinga um lóðahreinsun á lóðum Reykjanesbæjar að Berghólabraut 9 og 9a á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Þá var einnig fjöldi bílhræja fjarlægður.
Í húsnæði og á lóðunum á svæðinu voru ýmsir munir í óleyfi, m.a. ýmsar tegundir af farartækjum, áhöldum og timbureiningum. Á lóðunum við Berghólabraut 11, 13 og 15 voru einnig ýmsir óskilamunir í óleyfi. Gefinn var frestur til 21. maí til að fjarlægja þá en eftir þann tíma ætlaði Reykjaneshöfn að farga því sem yrði ekki sótt.
Halldór Karl Hermannsson, sviðsstjóri atvinnu- og hafnarmála hjá Reykjanesbæ, segir að núna séu lóðirnar komnar í það ástand að hægt sé að ráðstafa þeim. Framtíð lóðanna sé nú til vinnslu og að ákvörðun um ráðstöfun lóðanna verði vonandi tekin fyrir haustið, hvort lóðirnar verði seldar eins og þær eru eða nýttar í aðra uppbyggingu sem er til skoðunar á svæðinu. Halldór Karl segir að það sé fyrst og fremst bæjarráðs og bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að taka afstöðu til málsins.