Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjaneshöfn í brennidepli, kærleikskleinur og nýr sparisjóðsstjóri
Laugardagur 6. nóvember 2010 kl. 09:00

Reykjaneshöfn í brennidepli, kærleikskleinur og nýr sparisjóðsstjóri

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í vikunni var þetta helst í fréttum hér á vf.is:

1. nóvember:
Allt skorið niður sem hægt er

Allt verður skorið niður sem mögulegt er utan lögbundinnar þjónustu sveitarfélagsins, samkvæmt frumhugmyndum að fjárhagsáætlun sem lögð var fyrir Fjölskyldu- og félagsmálaráð í morgun.  Samkvæmt fundargerð er niðurskurður sem snýr að lögbundinni þjónustu „nokkuð raunhæfur miðað við þær forsendur sem liggja fyrir í dag,“ eins og það er orðað. Nefndin lýsir áhyggjum yfir niðurskurði til handleiðslu starfsmanna FFR.



1. nóvember:

Einar Hannesson tekur við sem sparisjóðsstjóri Spkef sparisjóðs

Í dag, mánudaginn 1. nóvember, tekur nýr sparisjóðsstjóri við Spkef sparisjóði. Einar Hannesson, sem stjórn sparisjóðsins réð nýverið til að stýra sparisjóðnum, tekur við og um leið mun Angantýr V. Jónasson, fráfarandi sparisjóðsstjóri, hverfa til annara verkefna innan sjóðsins.

Einar kemur til starfa hjá sparisjóðnum frá Icelandair Ground Services, IGS, þar sem hann hefur verið framkvæmdastjóri undanfarin ár. Einar hefur í senn víðtæka menntun og reynslu af stjórnun fyrirtækja. Það er fengur fyrir sparisjóðinn að honum sé stýrt af reynslumiklu fólki úr atvinnulífinu sem þekkir til þarfa og væntinga einstaklinga sem og fyrirtækja þegar kemur að fjármálum.
Einar hefur ásamt fjölskyldu sinni búið á Suðurnesjum undanfarin ár.

Mynd: Ásta Dís Óladóttir stjórnarformaður SpKef afhendir Einari Hannessyni, nýjum sparisjóðsstjóra lyklana að sparisjóðnum.



3. nóvember:
Fjármál hafnarinnar færð til Reykjanesbæjar

Fjármálaleg umsýsla Reykjaneshafnar verður flutt yfir til fjármálastjóra Reykjanesbæjar, samkvæmt tillögu sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi í gær. Formaður atvinnu- og hafnarráðs, sem bar upp tillöguna, segir af og frá að hún feli í sér vantraust á núverandi hafnarstjóra.

Í tillögunni segir að á þeim tímum þar sem veruleg fjármálaleg umsýsla eigi sér stað hjá Reykjaneshöfn og um sé að ræða stærstu fjárfestingar á ábyrgð bæjarins sé „eðlilegt og sjálfsagt að fjármálaskrifstofa Reykjanesbæjar veiti verkefninu meiri  stuðning og utanumhald,“ eins og það er orðað í tillögunni.

Höfnin var nýlega beitt févíti af Kauphöllinni upp á eina og hálfa milljón króna þar sem láðst hafði að tilkynna með réttum hætti gjaldfallin skuldabréf sem þar eru skráð. Í því ljósi kann sú spurning að vakna upp hvort ofangreind tillaga feli í sér vantraust á núverandi hafnarstjóra.

Aðspurður segir Einar Þ. Magnússon, formaður atvinnu- og hafnarráðs, það af og frá.

Að sögn Einars er ekki verið að færa allt bókhaldið heldur eingöngu hluta þess yfir til fjármálastjóra Reykjanesbæjar sem fái þá fái meiri og betri yfirsýn yfir bókhaldið og fjármálin enda sé höfnin að fullu í eigu bæjarins. Með þessari ráðstöfnun verði komið á meiri tengingu og samráði á milli þeirra aðila sem stýra fjármálum bæjarins og hafnarinnar. Einar segir höfnina skulda bæjarsjóði talsverðar fjárhæðir og með þessari ráðstöfnum verði haldið betur utan um þann þátt.

Umrædd tillaga hljóðar svo orðrétt:
„Í samræmi við ákvörðun atvinnu- og hafnaráðs fyrr í dag, samþykkir bæjarstjórn Reykjanesbæjar að fjármálaleg umsýsla hafnarinnar verði flutt til Reykjanesbæjar í samráði við fjármálastjóra bæjarins. Á þeim tímum þar sem veruleg fjármálaleg umsýsla á sér stað hjá Reykjaneshöfn, og um er að ræða stærstu fjárfestingar á ábyrgð bæjarins er eðlilegt og sjálfsagt að fjármálaskrifstofa Reykjanesbæjar veiti verkefninu meiri stuðning og utanumhald.“



3. nóvember:

Steiktu 4575 kærleikskleinur

Það var líf og fjör í bílskúrunum í Fornuvör og Litluvöllum í gær þegar bakaðar voru 4575 kærleikskleinur fyrir Fjölskylduhjálp Íslands sem er nærri helmingi fleiri kleinur en stefnt var að í upphafi. Fjölmargir bæjarbúar lögðu leið sína og réttu hjálparhönd en alls mættu 30 manns í Förnuvör hjá Birnu Óladóttur og 8 manns á Litluvelli hjá Pálmeyju Jakobsdóttur og fjölskyldu.

Alls fóru um 65 kg af hveiti í kleinurnar en bakstrinum lauk upp úr átta í gærkvöldi eftir 12 tíma törn. Fanný Laustsen starfsmaður í sundlauginni sem fékk þessa hugmynd segist hrærð yfir því hversu vel tókst til og Grindvíkingar hafi sannarlega sýnt samtakamátt sinn.


3. nóvember 2010:
Margar rangar ákvarðanir

Bæjarfulltrúar Samfylkingar í Reykjanesbæ segja skuldir bæjarins „ískyggilega háar” og nemi nú 360% af tekjum bæjarins. Þeir segja fjárhagsáætlun, sem lögð var fyrir í janúar á þessu ári, hafa verið byggða á sandi. Margar rangar ákvarðanir hafi verið teknar í rekstri bæjarins á síðustu árum. Greinilegt sé að bæta verði áætlunargerð og undirbúning fjárhagsáætlunar verulega en þar hafi  skort á raunhæf vinnubrögð.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í bókun Samfylkingarinnar sem lögð var fram á bæjarstjórnarfundi í gær. Þar var endurskoðuð fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2010 til umræðu. Hún var samþykkt með atvæðum meirihlutans en minnihlutinn greiddi ekki atkvæði og sat hjá.

Bókunin er svohljóðandi:

„Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2010 sem nú liggur fyrir sýnir svo ekki verður um villst að sú áætlun sem lögð var fyrir bæjarstjórn í janúar 2010 var byggð á sandi.

Bæjarfulltrúar A-listans bókuðu m.a. eftirfarandi á bæjarstjórnarfundi 5. janúar 2010. ,,Við skulum vona að niðurstaða þessarar áætlunar gangi eftir en verum þess jafnframt viðbúin að það muni skeika um hundruði milljóna eða jafnvel milljarða miðað við reynslu af áætlanagerð sjálfstæðismanna á sl. árum."

Því miður reyndust bæjarfulltrúar A-listans sannspáir. Eigið fé bæjarsjóðs um næstu áramót er áætlað 18% en ekki 39,9% eins og áætlun sjálfstæðismanna sagði til um. Skuldir bæjarsjóðs miðað við tekjur bæjarsjóðs eru ískyggilega háar og nema nú 360% af tekjum bæjarins.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ leggja áherslu á að pólitískan ágreining þarf að leggja til hliðar í þeirri vinnu sem framundan er til að bjarga því sem bjargað verður í rekstri og fjármálum Reykjanesbæjar. Mikill niðurskurður blasir við og öllum er nú ljóst að teknar hafa veið margar rangar ákvarðanir í síðustu árum en afleiðingarnar skella nú með fullum þunga á íbúum Reykjanesbæjar.

Allar ákvarðanir um leiðir til að brúa gatið, meiri niðurskurður eða auknar tekjur koma til með að vera umdeildar og grundvöllur skoðanaskipta. Slíkur ágreiningur má þó ekki koma í veg fyrir samstarf um lausnir og lagfæringar á þeim brotalömum sem nú eru til staðar. Nú verður að skoða allar leiðir til úrbóta og við munum á næstu vikum leggja okkar lóð á vogaskálarnar við gerð fjárhagsáætlunar 2011 með það að markmiði að bæta rekstur bæjarsjóðs. Greinilegt er að bæta verður áætlunargerð og undirbúning fjárhagsáætlunar verulega en þar hefur verulega skort á raunhæf vinnubrögð.
Ítrekaður taprekstur á Reykjanesbæ síðustu árin sýnir það og sannar.

Við leggjum enn og aftur áherslu á að áætlanagerð í fjármálum Reykjanesbæjar þarf að fylgja gagnger endurskoðun á B-hluta fyrirtækum Reykjanesbæjar, Kölku, Reykjaneshöfn, Íslending og Útlending og Fasteign í því skyni að létta á skuldabyrði Reykjanesbæjar.“



3. nóvember:

Slekkur á enska boltanum

Veitingastaðurinn Top of the Rock á Ásbrú hefur lokað fyrir útsendingar frá Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport 2. Ástæðan er að þeir sem koma og horfa á fótboltann hafa ekki séð sér fært að kaupa veitingar á barnum.

Veitingastaðir sem sýna enska boltann greiða sérstakt gjald fyrir það til rétthafa og þannig kostar það Top of the Rock um hálfa milljón króna á ári að sýna boltann, auk launakostnaðar. Júlíus Sigurþórsson vert á veitingastaðnum nefnir dæmi þar sem 40 manna hópur hafi komið til að horfa á leik en aðeins fimm þeirra keypt sér bjór, þrír fengu sér gosglas og tveir kaffi. „Aðrir bara labba inn og labba út og segja ekki svo mikið sem takk,“ segir Júlíus. Það sé því alls ekki rekstrargrundvöllur fyrir því að bjóða upp á útsendingar frá boltanum og aðstöðu þar sem fótboltaáhugamenn geti hreiðrað um sig í djúpum amerískum hægindastólum.

Júlíus blæs á sögusagnir um það að hann sé að hætta veitingarekstrinum en framvegis mun Top of the Rock opna kl. 19 alla daga vikunnar, löngu eftir að útsendingum á enska lýkur.


4. nóvember:
Hægt að stórauka fiskvinnslu með litlum tilkostnaði

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ ætla að fara þess á leit við sjávarútvegsráðherra að bæjarfélagið fái úthlutað byggðakvóta og hann skoði leiðir til þess að vinna með heimamönnum að frekari uppbyggingu sjávarútvegs á svæðinu. Landaður bolfiskafli í Keflavík og Njarðvík hefur dregist saman úr 57 þúsund tonnum niður í 5 þúsund tonn frá því um miðja síðustu öld þegar Keflavík var ein stærsta löndunarhöfn landsins.

Þetta kom fram í máli Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á þriðjudaginn. Árni ræddi stöðu sjávarútvegs á svæðinu og rakti í stuttu máli þróun hans síðustu áratugina.
Árið 1967 var yfir 48 þúsund tonnum af  bolfiski landað árlega í Keflavík og Njarðvík.  Tíu árum síðar hafði aflinn aukist í 57 þúsund tonn. Árið 1987 hafði bolfiskaflinn dregist saman um helming og var kominn niður í 26 þúsund tonn. Þá fór að halla verulega undan fæti er togarar Hraðfrystihúss Keflavíkur voru seldir burtu. Árið 1997 var bolfiskaflinn kominn niður í 14 þúsund tonn og árið 2007 hafði hann hrapað niður 5 þúsund tonn, samkvæmt því sem fram kom í máli Árna.

Árni sagði fulla ástæðu til að velta því upp hvort ekki væru hægt að snúa við blaðinu í sjávarútvegi á svæðinu og nefndi m.a. byggðakvóta í því sambandi. Taldi Árni það skjóta skökku við að bæjarfélög með enga höfn fengju byggðakvóta við úthlutun.
„Við leyfðum okkur fyrir nokkru síðan að sækja um byggðakvóta. Þá var okkur tilkynnt að við værum ekki einu sinni á byggðakortinu. Þess vegna þýddi ekkert fyrir okkur að sækja um byggðakvóta. Við gerðum það nú samt en þá voru viðbrögðin þau að þetta væri ekki svaravert. Það barst aldrei svar til baka. Þetta er auðvitað eitthvað sem við eigum ekki að sætta okkur við,“ sagði Árni.

Árni sagði það athyglisvert að þrátt fyrir lítinn afla væri mikill kraftur í fiskvinnslunni í bæjarfélaginu en 15 fiskvinnslufyrirtæki væru starfandi í bænum. Í kringum þessi fyrirtæki væru vel á annað hundruð störf. Um væri að ræða lítil og meðalstór fyrirtæki sem mörg hver væru að nýta gömlu fiskvinnsluhúsin. Þarna lægju fjárfestingar sem hægt væri að auka við og nýta betur. Með tiltölulega litlum tilkostnaði væri hægt að stórauka fiskvinnslu í bæjarfélaginu.
Árni nefndi að í bæjarfélaginu væri skráðir 56 bátar undir 20 brúttótonnum og 42 bátar yfir, alls 90 bátar. Á þetta yrði bent í væntanlegu erindi til sjávarútvegsráðherra þar sem þess yrði óskað að hann ynni með heimamömmun að frekari uppbyggingu sjávarútvegs á svæðinu og skoðaði leiðir til að styðja við hann.



4. nóvember:

Lánadrottnar Reykjaneshafnar fá lengri umhugsunarfrest

Reykjaneshöfn hefur í samráði við kröfuhafa ákveðið að breyta tillögu sinni sem snýr að því að skapa svigrúm fyrir höfnina og marka nýja stefnu sem tryggja á fullar heimtur fyrir lánadrottna.
Samkvæmt breytingunni er frestur kröfuhafa til að samþykkja tillöguna lengdur og verður til og með 30. nóvember 2010 í stað 17. nóvember Af þessu leiðir að Reykjaneshöfn mun tilkynna um afdrif tillögunnar þann 1. desember 2010 í stað 18. nóvember 2010, segir í tilkynningu frá Reykjaneshöfn.

Þá er að ósk kröfuhafa bætt inn í tillöguna ákvæði þess efnis að allir kröfuhafar hafi rétt til gjaldfellingar krafna sinna þann 1. maí 2011 ef ekki tekst að koma fjármálum Reykjaneshafnar í viðundandi horf fyrir þann tíma.

Forsvarsmenn Reykjaneshafnar og lánveitendur hennar komu saman til fundar í gær. Tilgangur hans var að upplýsa lánveitendur um aðdraganda og orsakir þeirra greiðsluerfiðleika sem Reykjaneshöfn er í. Farið var yfir þá stöðu sem myndast hefur og væntingar til framtíðar miðað við óbreytta stefnu.
Jafnframt lögðu forsvarsmenn Reykjaneshafar fyrir lánveitendur tillögu sem snýr að því að skapa svigrúm fyrir höfnina til að marka nýja stefnu sem tryggja á  fullar heimtur fyrir lánadrottna.

Meginatriði tillögunar eru m.a. fólgnar í því að engar greiðslur eða greiðslur vaxta og  afborgana verði fyrr en 1. maí á næsta ári. Yfirstandandi fjárfestingaverkefni verða stöðvuð og engin ný verkefni sett í gang. Nauðsynlegt er að allir kröfuhafar samþykki tillöguna formlega.

4. nóvember:
Öllu lauslegu rænt úr bíl utan við leikskóla

Fólk er hvatt til að læsa bílum sínum meðan það fylgir börnum sínum inn á leikskólann. Farið var inn í ólæsta bifreið í gærmorgun utan við leikskólann Akur í Reykjanesbæ og öllu lauslegu stolið úr bílnum á meðan forráðamaður bílsins fylgdi barni sínu inn á leikskólann.

Meðal annars var veski stolið ásamt GPS leiðsögutæki og öðru lauslegu. Það er því ljóst að þjófar fara snemma á fætur og sitja nú um fórnarlömb sín utan við leikskólana í Reykjanesbæ. Það skiptir því engu máli hvort fólk er eina eða tvær mínútur í burtu frá bílnum, því þjófarnir fara hratt yfir og athafna sig á fáeinum sekúndum og núna þegar morgnar eru að verða dimmir, þá er auðveldara fyrir þjófa að leynast í myrkrinu.


5. nóvember:
Innbrot og þjófnaðir á Suðurnesjum

Lögreglunni á Suðurnesjum hefur að undanförnu borist nokkur fjöldi tilkynninga um innbrot og tilraunir til innbrots. Innbrotin hafa átt sér stað bæði að nóttu og degi og hafa heimili, bifreiðar og fyrirtæki orðið fyrir barðinu á innbrotsþjófum. Meðal annars var farið inn í ólæstan bíl fyrir utan leikskóla og veski stolið, en ökumaðurinn hafði skroppið inn með barnið sitt í skólann.

Innbrot í heimahús hafa yfirleitt átt sér stað um miðjan dag, þegar fólk er ekki heima. Í flestum tilfellum hafa hálfopnir gluggar verið spenntir upp og þannig farið inn í húsin.

Lögregla vill kom því á framfæri við fólk að gæta að húsum sínum og öðrum eigum og tryggja það að óviðkomandi hafi ekki greiðan aðgang að eigum þess. Mikilvægt er að loka gluggum og læsa tryggilega.

Lögreglan hvetur fólk til að láta vita um grunsamlegar mannaferðir, ekki síst í íbúðahverfum, en upplýsingar frá nágrönnum geta skipt miklu máli. Það sem fólki kann að þykja lítilfjörlegt getur orðið til þess að upplýsa mál. Hér er m.a. átt við lýsingu á mönnum, bifreiðum eða bílnúmerum, en slíkar upplýsingar geta oft komið lögreglu á sporið. Rétt er að geta þess að innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða.

Hægt er að koma ábendingum/upplýsingum á framfæri við lögreglu í síma 420-1800 eða netfang lögreglunnar á Suðurnesjum, [email protected]