Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjaneshöfn fékk greiðslufrest til 30. nóvember
Fimmtudagur 15. október 2015 kl. 11:47

Reykjaneshöfn fékk greiðslufrest til 30. nóvember

Reykjaneshöfn fékk greiðslufrest á lánum sem voru á gjalddaga í dag 15. október að upphæð 140 milljónir króna. Fresturinn var veittur til 30. nóvember nk. Ekki kom því til greiðslufalls. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar segist vona að hægt væri að nýta tímann fram að því til að að ganga frá málunum. Fulltrúar bæjarins og hafnarinnar funduðu í gær með lánadrottnum en m.a. er um að ræða tvær afborganir af skuldabréfum í skuldabréfaflokkum sem skráðir eru í Kauphöllina.

Aðkoma kröfuhafa Reykjaneshafnar í formi endurskipulagningar skulda er forsenda fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu Reykjanesbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ef ekki nást samningar við kröfuhafa verður óskað eftir því að bæjarfélaginu verður skipuð fjárhagsstjórn, eins og skylt er samkvæmt sveitastjórnarlögum.

Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Kjartan að margir lánadrottna hafnarinnar séu fagfjárfestar. „Ef höfnin fer í greiðslustöðvun, ef við getum ekki greitt, þá verður náttúrulega bara rekstrarstöðvun og við vitum ekki hvað gerist nákvæmlega í framhaldinu“.

Fjárhagsvandi Reykjaneshafnar er aðeins einn angi af fjárhagsvandræðum bæjarfélagsins. Kjartan Már sagði að viðræður við lánadrottna gangi þokkalega. Viðskiptablaðið segist hafa heimildir fyrir því að bærinn hafi óskað eftir allt að 9 milljarða króna eftirgjöf af skuldum sínum en þær nema rúmlega 40 milljörðum kr. Það er því verið að tala um niðurfellingu á um það bil fjórðungi skuldanna.

Samkvæmt tilkynningu Reykjanesbær í síðustu viku áætlar bæjarfélagið að leggja fram tillögur að heildarskipulagningu fjárhags bæjarins á næstunni. Kjartan Már segir að áfram sé unnið eftir þeim markmiðum að Reykjanesbær komi fjármálunum í lag og muni ekki fá yfir sig fjárhagsstjórn en til þess þarf að ná samningum við kröfuhafa. „Það hefur ekkert sveitarfélag á Íslandi verið í þessari stöðu sem við erum í en vonandi tekst okkur að ná samningum við kröfuhafa.“