Reykjanesfólkvangur verði stækkaður
Minnisblað með samantekt um stjórnunaráætlun Reykjanesfólkvangs hefur verið lagt fyrir bæjarráð Sveitarfélagsins Voga. Bæjarráð samþykkir samhljóma eftirfarandi umsögn um stjórnaráætlunina:
Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga lýsir yfir stuðningi sínum við stjórnunaráætlun Reykjanesfólkvangs sem send hefur verið sveitarfélaginu til umsagnar. Bæjarráð leggur áherslu á og tekur undir með skýrsluhöfundum um mikilvægi þess að fólkvangurinn verði stækkaður til vesturs og að Keilir og Höskuldarvellir verði þannig hluti af fólkvanginum (kafli 7.1.2). Jafnframt leggur bæjarráð áherslu á mikilvægi þess að fundin verði ásættanleg lausn á aðkomu að framangreindum stöðum, í góðri sátt og samstarfi við landeigendur. Bæjarráð leggur áherslu á mikilvægi þess að eftirlit sé markvisst á svæðinu og að framkvæmdir fari ekki yfir skilgreind þolmörk.