Reykjanesbraut: Útboð og framkvæmdir hefjast á næsta ári
„Það er minn vilji að útboð vegna áframhaldandi framkvæmda á Reykjanesbraut verði á fyrri part næsta árs og framkvæmdir geti síðan hafist á árinu 2005,“ sagði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra á fundi með fulltrúum áhugahóps um örugga Reykjanesbraut í húsakynnum ráðuneytisins sl. föstudag.
Ráðherrann upplýsti fulltrúa áhugahópsins um að beðið væri eftir að gerð fjárlaga myndi ljúka og samgönguáætlun í framhaldi af því. Eins og fram hefur komið liggur fyrir frestun framkvæmda fyrir tvo milljarða á næsta ári. „Fljótlega eftir áramót munum við teikna upp fjögurra ára áætlun þar sem gert verður ráð fyrir fjármagni í Reykjanesbrautina“, sagði ráðherrann við fulltrúa áhugahópsins sem mættu á fund hans til að fá skýr svör við hvernig áframhald framkvæmda yrði háttað á Reykjanesbraut.
Eins og fram hefur komið fundaðu fulltrúar áhugahópsins með öllum þingmönnum kjördæmisins í síðustu viku þar sem þeir lýstu því yfir að framkvæmdir við Reykjanesbraut yrðu í forgangi. Á þeim fundi komu upp ýmsar hugmyndir s.s. eins og hvort möguleiki væri á einkaframkvæmd með gjaldtöku, hvort von væri á auknu fjármagni vegna aukinna tekna af bensíngjaldi og fleira.
Ráðherrann þakkaði áhugahópnum fyrir hans framlag í tvöföldun brautarinnar sem og samstarfið við hann og Suðurnesjamenn. Hann óskaði eftir því við fulltrúa hópsins að þeir myndu heimsækja Umferðarstofu en þar er mikið átak í gangi framundan í umferðaröryggi.
VF-mynd: Fulltrúar áhugahópsins fyrir utan Alþingishúsið