Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbraut: Framkvæmdum verði lokið í október
Fimmtudagur 28. febrúar 2008 kl. 14:34

Reykjanesbraut: Framkvæmdum verði lokið í október

Stefnt er að því að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar í október næstkomandi. Framkvæmdir hafa legið niðri um tíma eftir að Jarðvélar sögðu sig frá verkinu vegna fjárhagserfiðleika og af þeim sökum var fyrirsjánlegt að verkið myndi tefjast jafnvel fram að næstu áramótum. Sú töf verður því mun styttri gangi áætlanir Vegagerðarinnar eftir. Vinna við brúarsmíði á mislægum gatnamótum við Voga mun líklega hefjast aftur um miðjan mars. Verktakafyrirtækið Eykt, sem var undirverktaki Jarðvéla, annaðist brúarsmíðina og er nú verið ljúka samningum við fyrirtækið um áframhald verksins.

Þetta kom fram á fundi gær sem þegar Jónas Snæbjörnsson, umdæmisverkfræðingur Vegargerðarinnar, átti með Steinþóri Jónssyni, formanni áhugahóps um örugga Reykjanesbraut og Samstöðu, og Árna Johnsen, þingmanni. Fundurinn fór fram á Reykjanesbrautinni en hann er tilkomin í framhaldi af nýlegri fyrirspurn um stöðu mála á Reykjanesbraut sem Björk Guðjónsdóttir, þingkona, lagði fyrir samgönguráðherra.

Á næstu dögum verður unnið að því að bæta merkingar og lagfæra aðkomu að hjáleiðum á Reykjanesbrautinni og er sú vinna þegar hafin. Reynt verður að bæta öryggi eins og kostur er. Steinblokkir verða t.d. fjarlægðar eða færðar í því skyni og í stað þeirra sett stauravirki með ljósum á.

Árni Johnsen segir að á fundinum hafi komið fram að útboð um áframhald tvöföldunarinnar muni fara fram annaðhvort þann 10. eða 17. mars. Reiknað sé með því að öllu verkinu verði lokið í lok október. 

„Þrátt fyrir góðan fund og vilja til að gera það besta miðað við aðstæður þó er stóra málið núna að vegfarendur sýni sérstaka aðgát þá mánuði sem framkvæmdirnar standa yfir. Þær skapa vissulega ákveðna slysahættu og afar mikilvægt að fólk hafi það í huga,“ sagði Steinþór Jónsson.

Mynd: Árni Johnsen, Jónas Snæbjörnsson og Steinþór Jónsson skoða aðstæður á Reykjanesbrautinni í gær. VF-mynd: elg

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024