Reykjanesbraut enn lokuð
Reykjanesbraut hefur verið lokað aftur en þar er mikill skafrenningur og sér ekki út úr augum. Ekki er ljóst hvenær verður aftur hægt að opna og hvetur lögreglan á Suðurnesjum fólk til að vera sem minnst á ferðinni.
Reykjanesbraut hefur verið ófær í alla nótt. Upp úr klukkan hálf átta var opnað fyrir umferð frá Hafnarfirði til Keflavíkur, en fljótlega þurfti að loka aftur þegar færð spilltist.
Reykjanesbrautin er nú lokuð í báðar áttir. Þungfært er frá Garði og Sandgerði til Keflavíkurflugvallar.
Það voru margir í vandræðum í morgun en þessi mynd var tekin í Njarðvíkum á níunda tímanum. Þá var stór grafa að hjálpa stórum flutningabíl. VF-mynd/pket