Reykjanesbraut brúuð fyrir íbúa Ásbrúar
Reykjanesbraut hefur verið brúuð við Grænásbraut og nú vinna verktakar að lokafrágangi við brúnna og tengdar göngu- og reiðleiðir. Framkvæmdir hafa staðið yfir í allt sumar við að að byggja undirgöng undir Reykjanesbrautina við hringtorg á Grænási. Núna er verið að malbika göngu- og hjólreiðastíg frá gömlu lögreglustöðinni í Grænási og upp á Ásbrú.
Samhliða göngu- og hjólastíg undir Reykjanesbrautina á þessum stað hefur verið lagður reiðstígur undir Reykjanesbraut og komast nú hestamenn undir götuna á sama stað og geta riðið eftir breiðum stíg upp á Ásbrú.
Lýsing verður við nýja göngu- og hjólreiðastíginn og á ennþá eftir að ganga frá henni en það gerist á allra næstu dögum. Að sögn verktaka á staðnum hafa þeir þegar orðið varir við talsverða umferð gangandi um stíginn, þó svo hann sé ekki frágenginn að fullu frágenginn. Undirgöngin og stígurinn eru mikil samgöngubót fyrir þá sem fara gangandi, hjólandi eða ríðandi til og frá Ásbrú, því nú þarf ekki að fara yfir hættulega umferðargötu.
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson