Reykjanesbraut: Ákvörðun frestað
Ákvörðun um með hvaða hætti framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar verði lokið hefur verið frestað til miðvikudags, 23. janúar. Þetta var ákveðið á fundi Vegagerðarinnar með verktökum í gær. Jarðvélar ehf eru enn formlega aðalverktaki framkvæmdanna, þótt fyrirtækið hafi lýst því yfir að það ráði ekki við að ljúka þeim. Þetta kom fram í fréttum RÚV núna í hádeginu.
Í því ljósi þarf að taka afstöðu til þess, hvort Jarðvélar verða áfram aðalverktakinn að forminu til, þótt undirverktakar annist sjálfar framkvæmdirnar, eða hvort eftirstöðvar verksins verða boðnar út að nýju. Ætlunin er að skera úr um þetta á fundi næsta miðvikudag. Á meðan annast Vegagerðin framkvæmdasvæðin, þar á meðal merkingar og lýsingu vegarins.
www.ruv.is