Reykjanesbraut: 80 manns í umferðarslysi
Óhætt er að segja að umferðarslys gerist ekki mikið fjölmennari en það sem varð á Reykjanesbrautinni ofan byggðarinnar í Reykjanesbæ um miðjan dag í gær. Þar rákust saman hópferðabifreið og jeppi. Í jeppanum voru ökumaður og þrír farþegar en í hópferðabílnum 75 farþegar auk ökumanns.
Svo virðist sem jeppabifreiðinni hafi verið ekið í átt að hægri vegaröxl og skyndilega beygt til vinstri í veg fyrir hópferðabifreiðina. Ökumaður jeppabifreiðarinnar mun hafa kastast út úr bifreiðinni við áreksturinn. Hann var fluttur með sjúkrabifreið svo og þrír farþegar í sömu bifreið. Hópferðabifreiðin með 75 farþega innanborðs staðnæmdist um 100 metra frá slysstað og þykir mikil mildi að engin slasaðist í hópferðabifreiðinni.
Farþegum í hópferðabifreiðinni var boðin áfallahjálp þegar til Reykjavíkur var komið. Loka þurfti Reykjanesbraut á meðan lögregla og sjúkraflutningsmenn unnu störf sín á vettvangi og var umferð því beint um Reykjanesbæ.
Mynd: Frá slysinu í gær. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi