Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbær vill endurskoða samstarf
Föstudagur 9. október 2015 kl. 09:36

Reykjanesbær vill endurskoða samstarf

– og Reykjavíkurborg daðrar við Sandgerði

Talsverðar umræður sköpuðust um samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum [SSS] í Reykjanesbæ um nýliðna helgi. Breytingar voru gerðar á dagskrá aðalfundarins í kjölfar þess að fulltrúar Reykjanesbæjar lýstu því að þeir vildu velta við steinum í samstarfinu og skoða það upp á nýtt.

Baldur Guðmundsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og fundarstjóri aðalfundar SSS, sagði að ástæða þess að Reykjanesbær færi í þessa vegferð væri erfið fjárhagsstaða sveitarfélagsins. „Við verðum að skoða samstarfið hvernig sem fjárhagsstaðan er,“ sagði Baldur. Hann sagði að ekki væri alltaf hægt að meta ávinninginn af samstarfi í peningum „en við verðum að gera það. Skoða málið blákalt í Exel“. Hann spurði einnig hvort sveitarfélögin væru að snúa bökum saman og vildi meina að þau væru oft ekki einhuga og kæmu ekki fram sem ein rödd og því ekki að ná árangri.

„Þurfum að endurskoða samstarfið á öllum sviðum“

Friðjón Einarsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, startaði umræðunni á fyrri degi aðalfundar SSS og hélt svo málinu áfram á seinni deginum. „Fjárhagsleg staða Reykjanesbæjar er með þeim hætti að við þurfum að endurskoða alla þætti er lúta að samstarfi sveitarfélaga,“ sagði Friðjón. Hann fór yfir þá vinnu sem unnin hefur verið í Reykjanesbæ síðasta árið og gengur undir nafninu Sóknin. „Við erum þrír gamlir karlar sem erum í forystu fyrir þetta ásamt fiðluleikara og samstarfið er afburða gott. Við ætlum að klára þetta mál,“ sagði hann í léttum dúr og vitnaði þar til samstarfs oddvitanna í bæjarstjórn og bæjarstjórans.

Friðjón fór yfir ýmsa þætti í samstarfi sveitarfélaganna á Suðurnesjum þar sem hann vakti athygli á því að vantaði þátttöku Grindavíkurbæjar. Nefndi hann þar Öldrunarráð Suðurnesja, Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum og Brunavarnir Suðurnesja, sem væru samstarfsvettvangur án Grindavíkur.

„Við erum með Kölku þar sem við erum öll saman. Þetta þýðir það að sveitarfélögin velja sér oft það sem þau vilja vera í samstarfi. Ég er ekki að segja að það sé rangt en það er kannski það sem við Reyknesbæingar viljum gera núna. Við veljum okkar þar sem við viljum vera í samstarfi, þar sem það hentar okkur“. Og Friðjón bætti við: „Samstarf er nauðsynlegt fyrir framþróun á svæðinu á öllum sviðum. Við eigum ekki að rífast um öldrunar- eða hjúkrunarrými. Þar er aldrei nein samstaða. Ég man eftir fundi fyrir ári síðan þar sem Grindvíkingar lýstu því yfir að þeir ætluðu að gefa eftir fimm rými svo hægt væri að endurbyggja Garðvang. Ég hef ekki séð þau rými koma þar. Það var gert í einhverri gleði. Hver ætlar að fara að reka 20 rýma hjúkrunarheimili? Enginn. Það vita allir hér inni að það er ekki hægt. Það er of dýrt. Við þurfum að endurskoða samstarfið á öllum sviðum og ganga opin í þá umræðu. Við erum til í allt en við þurfum að tala um þetta eins og þetta er, en ekki eins og við höldum að þetta sé“.

Og Friðjón hélt áfram: „Það eru yfir 20 grasvellir á Suðurnesjum. Það eru 10 sundlaugar á Suðurnesjum fyrir 25.000 manns. Þetta kostar sitt, enda eru sveitarfélögin frekar illa stödd rekstrarlega. Þegar ég segi frá því að við séum með 21 knattspyrnuvöll og 9 eða 10 sundlaugar, þá er ég spurður: Hvar býrð þú eiginlega? Við getum ekki rekið þetta svona til framtíðar. Ef við hefðum ekki selt Hitaveituna, hvar værum við þá stödd? Ef við hugsum það til baka, það væri skelfilegt“.

Friðjón fór yfir skuldastöðu Reykjanesbæjar og samskiptin við kröfuhafa sem vilja helst ekkert gera annað en að lengja í skuldum til allt að 50 ára. Hann sagði að aðeins væri að rofa til í samningaviðræðum. „Þeir verða líka að tapa á þessu hruni. Það voru þeir sem lánuðu okkur peningana“. Þá sagði Friðjón að kröfuhafar væru ekki endilega erfiðastir. „Ríkið hefur verið okkur erfiðast. Ekki bara varðandi Helguvík, heldur ota þeir okkur saman og segja við okkur að við stöndum ekki saman,“ og vísaði til þess að sveitarfélögin á Suðurnesjum töluðu ekki einni röddu.



Reykjanesbær verður að meta stöðuna blákalt

Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, var næstur upp til að skýra ástæður þess að Reykjanesbær vildi endurskoða samstarf sveitarfélaganna. „Við getum ekki skattpínt íbúa Reykjanesbæjar umfram aðra. Það gengur ekki upp. Íbúar sem enga sök bera á að staðan er þessi geta ekki borið skaðann einir. Það verða einhverjir aðrir að koma til. Þess vegna erum við í þessum viðræðum við kröfuhafa því þeir eru hluti af þessu vandamáli. Menn lánuðu ótæpilega og skuldir hlóðust upp. Það verða allir að bera ábyrgð á því, ekki bara íbúar. Það er alveg kýrskýrt að við ætlum ekki að láta íbúana bera þær álögur áratugi fram í tímann. Þetta er það sem ræður hugsanagangi okkar frá degi til dags og vangaveltum um það hvernig við getum farið í hverja einustu músarholu sem til er til að leita að fjármagni til að geta rekið þetta blessaða sveitarfélag okkar. Samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum er ein músarholan. Það hafa í gegnum tíðina runnið talsverðir fjármunir inn í þetta samstarf,“ sagði Guðbrandur.

Guðbrandur nefndi tap nokkurra aðila í samstarfinu eins og Dvalarheimili aldraðra, Brunavarnir Suðurnesja og strætósamgöngur. Það lenti á Reykjanesbæ að greiða stærstan hluta af því tapi.
„Eins og bent var á hér áðan þá eru ekki alltaf öll sveitarfélögin í samstarfinu. Það getur verið uppi sú staða núna að Reykjanesbær verði að meta það blákalt að það geti verið hagkvæmara fyrir sveitarfélagið, því það er heimilt vegna stærðar okkar, að reka ýmsa þjónustuþætti inni á okkar borði. Það er heimilt að vera svokallað leiðandi sveitarfélag. Mér hefur fundist að önnur sveitarfélög taki ekki vel í það að Reykjanesbær verði svokallað leiðandi sveitarfélag. Það er einn möguleiki fyrir lítil sveitarfélög að ganga til samstarfs við stærri sveitarfélög og kaupa þjónustu af stóra sveitarfélaginu. Ég hef ekki upplifað þennan vilja hér á Suðurnesjum. Stundum er ég ekki alveg viss um þetta samstarf. Eru menn heilir í því eða bara þegar það hentar mér?,“ sagði Guðbrandur og bætti við að endingu:
„Við eigum að hugsa um það að finna eins góðar leiðir til að veita eins góða þjónustu fyrir eins litla peninga og við getum“.

Grindvíkingar vilja samvinnu en ekki sameiningu

Guðmundur Pálsson, bæjarfulltrúi í Grindavík, var næstur í pontu. Hann sagði það stóra málið hvort sveitarfélögin ættu að vinna saman og þá hvernig. „Auðvitað hefur það áhrif á öll hin sveitarfélögin þegar kjölfestu sveitarfélagið á í vandræðum. Við skiljum vel að menn þurfi að ná sér í allan þann sparnað sem hægt er og sjálfsögðu innan SSS ef því er að dreifa. Þeir hafa svolítið skotið á Grindvíkinga fyrir að velja sér þjónustuþætti til að vera í samstarfi um“. Guðmundur nefndi slökkviliðið og sagði að Grindvíkingar telji öryggisþáttinn þar svo mikilvægan að þeir vilji hafa liðið undir sinni stjórn í Grindavík. „Annars held ég að allir séu tilbúnir að skoða hvar við getum skorið niður. Það er rétt að stærsti kostnaðaraukinn lendir á Reykjanesbæ því þar eru flestir íbúarnir. Ég held að það sé enginn að hræðast það að taka ákvarðanir hvar við þurfum að skera niður til að koma til móts við aðila. Það getur vel verið að við þurfum að segja að almenningssamgöngur gangi ekki upp og við verðum bara að hætta þessu. Ef þetta er rekið með tug milljóna króna halla, eins og lítur út fyrir, þá lendir sá halli mest á Reykjanesbæ. Þá verðum við að taka þá meðvituðu ákvörðun eins og með fleiri mál, þó þetta sé stærsta málið í taprekstrinum“.

Guðmundur sagði sérstakt að koma inn á fundinn á seinni aðalfundardeginum og finna hvað andrúmsloftið var rafmagnað eftir fyrri fundardaginn. „Við verðum að skipa hóp til að fara ofan í þetta. Hvernig viljum við sjá þetta, svo við komumst lengra? Í Grindavík vilja menn ekki sameiningu þó þeir vilji samvinnu. Samvinna er upphafið að sameiningu en það er svolítið í það hjá Grindavík. Ég skora á menn að finna hóp og ræða málið í þaula. Við verðum að finna niðurstöðu með framtíðina“.



Þögnin í salnum sýnir alvarleika málsins

„Ég held að ég hafi aldrei gengið upp í pontu í svona þöglum sal. Það sýnir alvarleika málsins. Það á að vera fulltrúum Reykjanesbæjar alveg ljóst að við tökum þetta mjög alvarlega og munum gera það í framhaldinu. Það er alvarlegt og stór orð ef menn íhuga að ganga úr samstarfi fimm sveitarfélaga og eins og kom fram þá er stóri bróðir í vanda og nefnir það að hugsanlega ganga kannski út,“ sagði Einar Jón Pálsson, bæjarfulltrúi í Garði þegar hann kom í pontu.

„Það væri fróðlegt að vita hvað menn gera sér í hugarlund að þetta séu stórar upphæðir sem sparist fyrir Reykjanesbæ. Þegar skuldirnar eru 42 milljarðar króna þá geri ég mér í hugarlund að sparnaðurinn sé ekki stór við að ganga úr samstarfinu. Halda menn að rekstur Brunavarna Suðurnesja batni við það að 4000 íbúar hætta að borga inn í það batterý? Ætla menn að fækka bara vöktum og standa ekki þjónustuna við íbúa?,“ sagði Einar Jón og bætti við: „Hvað sjá menn fyrir sér að það náist margar milljónir í sparnað við að ganga út úr samstarfi SSS eða að hluta? Við þurfum að setjast niður og taka málið áfram í vinnuhópi. Við eigum að vinna saman og vinna miklu meira saman. Samvinna er fyrsta skref ef menn ætla að sameinast einhvern tímann“.

Garðvangur orðinn baggi

Inga Rut Hlöðversdóttir, bæjarfulltrúi Vogum, vakti athygli á rekstrarkostnaði Garðvangs sem stendur mannlaus í Garðinum . Rekstrarkostnaðurinn er rúmar 6 milljónir króna á ári, neysluvatn er farið að leka í eldri hluta hússins og ekki vilji til að leigja húsnæðið eða selja.



Reykjavík vill sameinast Sandgerði

„Þó ástandið sé þungt í Reykjanesbæ þá er það ekki einsdæmi. Vandamálið er stórt og hefur áhrif á okkur öll. Það er svo stórt fyrir ríkisvaldið að það vantar hugrekki að stíga inn og hjálpa. Það vill enginn fara inn í 14.000 manna samfélag og taka þátt í svo stórum rekstravanda. Það vildi ekki koma inn í 1600 manna samfélag sem Sandgerði var og taka þátt í þeim rekstrarvanda. Menn vilja segja eins lengi og þeir geta, leysið þetta sjálfir,“ sagði Ólafur Þór Ólafsson, bæjarfulltrúi í Sandgerði á fundinum.

„Ég kem úr sveitarfélagi þar sem við fórum úr skuldaviðmiði sem var um 460% og erum komin niður í rúm 200% í dag. Við fórum úr því að vera með neikvæða niðurstöðu úr rekstri í að við skilum afgangi á hverju ári og erum með eigið fé í dag sem veldur því að við getum staðið í framkvæmdum. Var það létt? Nei. Þruftum við að taka erfiðar ákvarðanir? Já. Þurftum við að leggja álögur á íbúa? Já. Eru ennþá álögur á íbúa? Já. Koma þær með að leysast strax? Nei. Við eigum eftir tvö, þrjú, fjögur ár. Þetta er staðan og ákvarðanir sem við þurftum að taka. Þurftum við að taka ákvarðanir? Já. Erum við hrædd við að taka þær? Nei. Svona þurfum við að nálgast verkefnið sem býður okkar nákvæmlega í dag. Við þurfum að horfast í augu við verkefnin. Við þurfum að meta stöðuna“.

Og Ólafur Þór bætti við: „Hallinn á Strætó er á milli 50-60 milljónir króna í ár. Það eru á milli 2500-3000 krónur á íbúa á Suðurnesjum. Það eru jafn miklar 2500-3000 krónur á íbúa í Sandgerði eins og í Reykjanesbæ. Við getum heldur ekki horft á það að það séu 10 sundlaugar á Suðurnesjum og það sé eyðsla. Það er ein sundlaug í Sandgerði, ein í Garði, ein í Vogum og ein í Grindavík. Það eru því sex sundlaugar í Reykjanesbæ. Það er því Reykjanesbæjar að taka á því hvaða sundlaug þeir ætla að loka“.

Ólafur Þór nefndi að hann hafi verið á málþingi á dögunum þar sem borgarstjórinn í Reykjavík hafi komið að máli við sig og nefnt á léttum nótum að þar sem í Reykjavík og Sandgerði væru tveir stærstu flugvellir landsins þá ættu Reykjavík og Sandgerði að sameinast. „Kannski er leiðin að Sandgerði og Reykjavík verði eitt sveitarfélag eftir nokkur ár,“ sagði Ólafur Þór þegar hann gekk úr pontu og uppskar hlátur fundargesta.

Lýðræðishalli í samstarfinu

Gunnar Þórarinsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, sagði að  lengi hafi verið ákveðinn lýðræðishalli í samstafinu „og það hefur verið agnúi sem að við í Reykjanesbæ höfum auðvitað fundið að og gert tillögur um að verið einhvernveginn leiðrétt. Þetta er eiginlega stærsti ljóðurinn á samstarfinu“. Gunnar sagðist leggja til að Garðvangur verði seldur eða komum honum í einhver not sem gefur tekjur. „Það er leið sem getur verið fyrsti áfangi í því að koma með ábyrgum hætti fram við íbúana hérna og spara peninga. Við getum selt húsið eða leigt og fengið tekjur á móti lífeyrisskuldbindingum“.



Gunnar kom inn á orð Ólafs Þórs um sameiningu Sandgerðis og Reykjavíkurborgar: „Ólafur talar um sameiningu við Reykjavíkurborg sem er ágætis hugmynd. Hefur honum ekki dottið í hug að sameinast Reykjanesbæ? Er það ekki ráð? Væri það ekki hugmynd? Nú kunna einhverjir að segja að það sé ekki hægt að sameinast Reykjanesbæ því hann skuldar svo mikið. Það kann vel að vera rétt. En innar tíðar verðum við betur settir en vel flestir á höfuðborgarsvæðinu. Hér á Suðurnesjum eru ákveðin tækifæri sem munu nýtast okkur vel. Það skiptir meginmáli að íbúarnir njóti góðs af því sem við erum að gera. Ég sé alveg fyrir mér að Garður, Sandgerði, Reykjanesbær og Vogar geti sameinast. Það eru ákveðin tækifæri í því,“ sagði Gunnar.

Þarf kjark til að skila verkefnum til baka

Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri í Sandgerði, sagði að eðlilegt sé að öll verkefni sveitarfélaganna verði skoðuð sérstaklega og hvort hægt sé að draga úr kostnaði og nefndi þar t.d. almenningssamgöngur. „Það þarf kjark til að taka ákvarðanir að skila verkefnum til baka.
Hvað ætlum við lengi að hafa þolinmæði í að reka húsnæði Garðvangs. Það eru 6 milljónir á ári og er því fljótt að safnast upp í háar fjárhæðir,“ sagði Sigrún.

„Góð hugmynd er að stofna vinnuhóp til að skoða hvar við getum losnað við verkefni og það þarf að taka af skarið. Okkur ber skylda til að skoða hvernig við rekum sveitarfélög svo vel sé og að við getum veitt sem besta þjónustu til íbúanna“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024