Reykjanesbær: verklegar framkvæmdir fyrir tæpan milljarð króna
Haldinn var kynningarfundur á vegum Reykjanesbæjar á verklegum framkvæmdum bæjarins fyrir árið 2003 á Ránni í dag. Árni Sigfússon bæjarstjóri kynnti fyrirhugaðar framkvæmdir fyrir verktökum og greindi meðal annars frá ýmsum hugmyndum varðandi framtíðarskipulag bæjarins. Í áætlunum Reykjanesbæjar er gert ráð fyrir að verklegar framkvæmdir árið 2003 kosti tæpan 1 milljarð króna. Meðal annars er um að ræða umhverfisframkvæmdir fyrir rúmar 95 milljónir, viðhaldsverkefni fyrir 60 milljónir, grjótvarnagarða fyrir 80 milljónir, sjóvarnagarða fyrir tæpar 110 milljónir og framkvæmdir í Helguvík fyrir 250 milljónir króna. Árni gerði aukið atvinnuleysi að umtalsefni og sagði að það besta sem sveitarfélög gætu gert þegar atvinnuleysi eykst væri að flýta verkefnum á vegum bæjarins og það væri verið að gera með þessari áætlun.