Reykjanesbær verður Jólabær
Í dag kynnti hópurinn á frumkvöðlanámskeiði 88-Hússins hugmyndir sínar að eflingu Reykjanesbæjar sem Jólabæjar.
Líkt og á síðustu kynningu hópsins voru viðtökur fagaðila mjög góðar enda komu fram nýjar og ferskar hugmyndir sem eiga eflaust flestar eftir að verða að veruleika.
Hæst bar hugmynd um jólaskrúðgöngu sem yrði ein sú glæsilegasta sem sést hefur og myndi skapa sér varanlegan sess í jólaundirbúningi Suðurnesjamanna.
Þar gætu þátttakendur, ungir og aldnir, klætt sig upp í jólatengda grímubúninga og gengið fylktu liði undir blæstri lúðrasveitar.
Þessi atburður myndi vekja mikla athygli á Reykjanesbæ og Hafnargötunni og vera ótrúlega góð auglýsing.
Eins og flestir vita hefur verið unnið gott starf í þessa átt síðustu ár og er stefnan að gera enn betur í framtíðinni.
Þá vakti hugmynd um Jólahöllina einnig athygli. Þar er gert ráð fyrir allsherjar „jólaþorpi“ þar sem hægt væri að afgreiða allan jólaundirbúninginn á einum stað.
Þar væri ýmis konar þjónustu að finna auk útibúa frá verslunum á svæðinu auk þess sem t.d. handverksfólk gæti kynnt og selt sína framleiðslu.
Í Jólahöllinni væri boðið upp á ýmislegt til skemmtunar. Þar væru samkeppnir af ýmsum toga, t.d. flottasta piparkökuhúsið, fallegasti jólatréstoppurinn og margt margt fleira.
Allir aðilar sem kæmu að þessu átaki gætu hagnast þar sem fólk yrði líklegra til að versla í heimabyggð og jafnvel væri hægt að sækja fólk til annarra landshluta. Bæjarbúar fengju að upplifa skemmtilega jólastemmningu og bæjarfélagið myndi fá mikla og jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum á landsvísu.
Verkefnið hlaut frábærar undirtektir og töldu aðilar sem fundinn sóttu að ekkert væri því til fyrirstöðu að nota flestar hugmyndirnar sem hópurinn kynnti. Meðal fundarmanna voru fulltrúar frá Reykjanesbæ, Víkurfréttum og samtökunum Betri Bæ.
Frumkvöðlanámskeiðinu er nú lokið og hafa þátttakendur skilað af sér góðu starfi og munu bæjarbúar eflaust sjá fjölmargar hugmyndir þeirra í framkvæmd á næstu árum.
VF-myndir/Þorgils Jónsson