Reykjanesbær verður heilsueflandi samfélag
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á dögunum að Reykjanesbær taki þátt í verkefni Embættis landlæknis, heilsueflandi samfélag. Frá þessu er greint á vef bæjarfélagsins. Bæjarstjórn samþykkti bókun bæjarráðs á fundi sínum í fyrradag. Heilsueflandi samfélag verður kynnt fyrir íbúum Reykjanesbæjar í heilsu- og forvarnarviku Reykjanesbæjar sem haldin verður 3. til 9. október næstkomandi.
Á undanförnum árum hefur á margan hátt verið unnið að forvörnum og bættri heilsu íbúa í Reykjanesbæ og á vef bæjarfélagsins segir að alltaf megi gera betur og að verkefnið miði að því. Áfengis- og vímuefnaneysla meðal grunnskólabarna hefur minnkað og nýjustu niðurstöður lýðheilsuvísa Embættis landlæknis sýna að ölvunardrykkja fullorðinna er lág og að íbúar í Reykjanesbæ og Suðurnesjum öllum séu hamingjusamir. Hins vegar þarf að minnka reykingar fullorðinna og bæta bæði andlega og líkamlega heilsu. Þó tölurnar séu tveggja til fjögurra ára gamlar og nýrra lýðheilsuvísa að vænta, er talin ástæða til að bregðast við þessum niðurstöðum.
Heilsueflandi samfélag miðar að því að þróa samfélagslegan ramma utan um markvissa og heildræna heilsueflingu allra aldurshópa. Í þeim tilgangi eru lagðir til grundvallar fjórir áhrifaþættir heilbrigðis sem unnið er með, það er næring, hreyfing, geðrækt og lífsgæði.
Öllum sem vilja taka þátt í Heilsu- og forvarnarviku í Reykjanesbæ 3. til 9. október er bent á að tilkynna viðburð sinn á netfangið [email protected] fyrir 23. september.