Reykjanesbær þarf að skrá á fimmta milljarð í tap vegna Hitaveitu Suðurnesja
Gera má ráð fyrir að tap í ársreikningi Reykjanesbæjar verði á fimmta milljarð kr. aðeins vegna eignahlutar bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja, sem
tapaði um 11,7 milljörðum kr. á árinu 2008. Þetta kom fram í máli Árna Sigfússonar bæjarstjóra í Reykjanesbæ á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi.
Árni sagði í viðtali við vf.is að stefnt væri að því að ljúka við gerð ársreiknings Reykjanesbæjar fyrir maílok. Það er augljóst að öll fjármagnsgjöld eru alvarlega skekkt vegna óhagstæðrar gengisþróunar um áramót. Tap Hitaveitunnar, sem kemur inní samstæðu ársreikning Reykjanesbæjar, er skýrasta dæmið um það. Reykjanesbær er enn stærsti eignaraðili að HS.
„En miðað við þetta megum við einnig gera ráð fyrir miklu reiknuðu tapi í ársreikningum vegna mjög óhagstæðrar gengisþróunar um áramótin. Það kemur m.a. fram í miklum lánum Reykjaneshafnar til framkvæmda í Helguvík, uppbyggingu á svæði fyrrum varnarliðs og háum leigugreiðslum bæjarsjóðs þar sem helmingur leigu eigna sem sveitarfélagið notar er greiddur í evrum.
Á þessu erfiðleikaári er þó mikilvægt að hafa í huga að lang stærstur hluti kostnaðar af þessum fjárfestingum mun skila öflugra atvinnulífi framundan og stórauknum tekjum til fyrirtækja, íbúa og bæjarsjóðs. En á þessum tíma eru þetta mjög þungur baggi að bera fyrir sveitarfélagið, sem treystir á að það verði fremur stutt ganga með slíkan bagga,“ sagði Árni.