Reykjanesbær tekur vel í hugmyndir Samherja um fiskeldi í Helguvík
Bæjarráð Reykjanesbæjar tekur vel í allar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu í Helguvík svo fremi sem Samherji uppfylli atriði sem snúa að atvinnusköpun, mengun og tekjur fyrir Helguvíkurhöfn.
„Þetta hljómar ágætlega og Reykjanesbær lítur jákvætt á málið en það er ýmsu að hyggja áður en lengra er haldið,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri við Víkurfréttir.
Í bókun sem bæjarráð samþykkti á fundi sínum í morgun segir m.a.:
Reykjanesbæ vill að Samherji uppfylli að minnsta kosti tvö af eftirfarandi atriðum:
- Skapi vellaunuð störf
- Sé ekki verulega mengandi
- Skapi tekjur af skipaumferð um Helguvíkurhöfn
Samherji-fiskeldi gerir nú nokkurs konar fýsileikakönnun á möguleikum á laxeldi í kerskálum Norðuráls í Helguvík. Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera slíkt hið sama m.t.t. ofangreindra atriða. Einnig að eiga samtal við Kadeco f.h. ríkisins sem landeiganda, og Suðurnesjabæ, sem fer með skipulagsvald lóðarinnar, um nýtingu lóðarinnar og skipulagsmál. Meðal annars þarf væntanlega að aflétta þynningarsvæði álvers svo hægt sé að hefja þar matvælaframleiðslu. Einnig að kanna hvort nauðsynlegt sé að lög nr. 51/2009 um heimild til samninga um álver í Helguvík séu felld úr gildi. Loks að kanna gildi ýmissa samninga sem gerðir hafa verið, áður en lengra er haldið.
Þá telur bæjarráð Reykjanesbæjar mikilvægt að samkomulag náist við Norðurál um uppgjör eftirstöðva kostnaðar sem Reykjaneshöfn og Reykjanesbær hafa lagt í á undanförnum áratug til undirbúnings hafnarinnar og svæðisins fyrir álver.