Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbær tekur ekki við fleiri hælisleitendum
Föstudagur 1. mars 2013 kl. 14:02

Reykjanesbær tekur ekki við fleiri hælisleitendum

Tillaga bæjarstjóra samþykkt einróma

Reykjanesbær hættir að taka við hælisleitendum frá og með 1. apríl næstkomandi. Tillaga Árna Sigfússonar þess efnis var samþykkt einróma á fundi bæjarráðs í gær. Þar kom einnig fram að ekki yrði fleiri en 50 hælisleitendur í bænum eftir hálft ár.

Í tillögu bæjarstjóra er vísað til greinar í samningi Reykjanesbæjar og Útlendingastofnunar þar sem segir að komi upp ófyrirsjáanlegar aðstæður, svo sem vegna mikillar fjölgunar hælisleitanda áskilja báðir sér rétt til að krefjast endurskoðunar á samninginum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í tillögunni kemur fram að 149 hælisleitendur séu á landinu að svo stöddu. Það er tvöfaldur fjöldi miðað við þegar samningar voru undirritaðir árið 2004. Frá síðustu áramótum hefur hælisleitendum svo fjölgað um 43 og segir í tillögunni að fleiri sé að vænta.

„Reykjanesbær telur verkefninu ekki til góðs að lítið sveitarfélag sitji eitt með þjónustu við slíkan fjölda hælisleitenda. Reykjanesbær hefur þrýst á við Útlendingastofnun og Innanríkisráðuneytið að gerður verði samningur við fleiri sveitarfélög um umönnun við hælisleitendur, en það hefur enn ekki gengið eftir,“ segir í tillögu Árna.

Reykjanesbær hefur á síðustu vikum leitað eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Það fyrirkomulag hefur skapað töluverða óhagræðingu bæði fyrir einstaklingana sjálfa og starfsfólk og er ekki ákjósanlegt til lengri tíma. Þá hefur Reykjanesbær lagt áherslu á við Innanríkisráðuneytið að komi verði upp biðaðstöðu fyrir óþekkta hælisleitendur sem ekki hefur orðið. Fjöldi hælisleitenda er sagður vera orðinn mjög áberandi í samfélaginu og því erfitt um eðlilega samlögun, sem væri bæði íbúum og þeim sem eru í hælisleit fyrir bestu. Tillagan er gerð í samráði við Félagsmálastjóra.