Reykjanesbær styrkir efnileg ungmenni
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í vikunni að styðja við nemendur grunnskóla Reykjanesbæjar sem vilja bæta við kunnáttu sína til að sækja námskeið fyrir efnilega nemdur á vegum Ad Astra í Háskólanum í Reykjavík. Hver nemandi fær styrk að upphæð kr. 5000.
Verkefnið er framhald af verkefni Heimilis og skóla og Háskóla Íslands um bráðger börn en markmið þess er að finna námsfúsum börnum verkefni við hæfi.
Ad Astra býður námskeiðið nemendum í 6. - 10 bekk og fara þau fram í Háskólanum í Reykjavík. Öll börn á þessum aldri eiga að hafa fengið erindi frá Ad Astra um verkefnið. Samkvæmt lauslegri athugun skólastjóra í Reykjanesbæ má vænta þess að 20 - 30 nemendur í 6. - 10. bekk uppfylli þau skilyrði sem sett eru nemendum til þátttöku. Markmiðið með verkefninu er að geta boðið bráðgerum börnum víða um land sem tíma og vilja hafa upp á enn frekara námsval.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri segir í frétt á vefsíðu bæjarins að það sé: „Mjög jákvætt að geta með þessum hætti stutt ungt fólk í Reykjanesbæ sem sýnir burði til hæfileika á mörgum sviðum. Við höfum að undanförnu stuðlað að samstarfi í framboði valgreina fyrir nemendur í 9. og 10. bekk og aukið samstarf við Fjölbrautaskólann um einingabært nám fyrir þennan hóp. Þetta er skemmtileg viðbót við það."
Þeir sem munu sækja námskeiðin leggja fram kvittun og fá endurgreitt hjá gjaldkera á bæjarskrifstofum Reykjanesbæjar.
Frekari upplýsingar má fá á vefsíðu Ad Astra ehf. Smellið hér
Af vef Reykjanesbæjar