Reykjanesbær spjaldtölvuvæðist – Risaskref inn í framtíðina
Samfélagið er að breytast með eðli þekkingar. Nýjar aðferðir og kennslutæki eru að ryðja sér til rúms og skólastarf er að færast nær raunveruleika nemenda. Reykjanesbær er um þessar mundir að innleiða iPad-spjaldtölvur inn í grunnskólastarf bæjarins en Heiðarskóli ríður þar á vaðið, hinir skólarnir fylgja svo í kjölfarið um áramót. Nemendur í 8.-10. bekk fá spjaldtölvurnar í hendur og þeim kennt að nýta sér tæknina sem spjaldtölvurnar bjóða upp á í námi. Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri Reykjanesbæjar og Haraldur Axel Einarsson aðstoðarskólastjóri Heiðarskóla, settust niður með blaðamanni Víkurfrétta og ræddu spjaldtölvuvæðinguna.
Haraldur er einn af þeim fyrstu til að nýta sér spjaldtölvu við kennslu. Haraldur fór hægt af stað, var í upphafi bara að leitast eftir því að geta skrifað beint á tölvuna því sem varpað væri síðan upp á töflu. „Ég keypti mér sjálfur iPad og kem með hann í skólann og byrjaði að prófa mig áfram. Við sáum strax að þetta var skrifbrettið sem við höfðum leitast eftir.“ Þetta vatt smám saman upp á sig, í ljós kom að notkunarmöguleikar Ipadanna voru miklir. Það verður síðan til þess að spjaldtölvan verður notuð meira við kennslu og innan skamms eru nemendur farnir að mæta með spjaldtölvur í skólann. Áhugi nemenda og ánægja í kennslu hefur aukist mikið. „Nú koma nemendur til okkar og benda okkur á forrit eða einhverjar leiðir sem sniðugt er að nota í náminu. Það er alveg nýtt. Það hefur ennþá enginn nemandi komið til mín með bók og tjáð mér að það væri gott að nota hana í náminu. Með því að nota spjaldtölvuna í kennslu erum við að sjá að nemendur eru í auknum mæli með meiri ábyrgð á sínu námi.“
Fjárfesting sem getur skipt sköpum
„Þetta er auðvitað fjárfesting. Það er alveg klárt að þetta er ekki ókeypis, en það eru hlutir sem detta út á móti. Þar sem þetta hefur verið tekið upp í skólum þá fer ljósritunarkostnaður til dæmis niður um 80%. Auk þess sem þetta er að sjálfsögðu umhverfisvænt. Bilanatíðni í þessum tölvum er mun fátíðari en í hinum hefðbundnu tölvum og spjaldtölvurnar munu að einhverju leyti leysa þær af hólmi,“ segir Gylfi Jón. Ofan á allt annað sýnir reynslan erlendis frá að yfirleitt batnar námsárangur í skólum þar sem spjaldtölvur eru notaðar með þeim hætti og fyrirhugað er í Reykjanesbæ.
Nánar í Víkurfréttum sem koma út í dag.