Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbær samþykkir að undirskriftasöfnun fari fram
Frá mótmælunum fyrr í maí mánuði en þar voru afhent mótmæli með óskum um bindandi íbúakosningu. Henni hefur verið hafnað.
Laugardagur 30. maí 2015 kl. 13:12

Reykjanesbær samþykkir að undirskriftasöfnun fari fram

Reykjanesbær mun þó standa við gerða samninga vegna kísilvers Thorsils.

Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti fyrir sitt leyti að heimila undirskriftasöfnun vegna málefna Thorsils kísilversins en ósk þessa efnis barst ráðinu 4. maí. Breyting á deiliskipulagi í Helguvík verður afgreidd á fundi bæjarstjórnar næsta þriðjudag og mun nokkuð örugglega verða samþykkt.

„Almennt stöðva ákvarðanir sem þessar ekki það ferli sem þegar er hafið. Reykjanesbær mun því fyrir sitt leyti standa við gerða samninga.  Formanni bæjarráðs og sviðsstjóra stjórnsýslusviðs er falið að vinna að framhaldi málsins. Kröfu frá 12 maí sl. um bindandi íbúakosningu er hafnað,“ segir í fundargerð bæjarráðs sl. fimmtudag.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarráði, þeir Árni Sigfússon og Böðar Jónsson bókuðu á sama fundi að óeðlilegt og óþarft væri að halda íbúakosningu um mál sem þegar hefur verið tekin ákvörðun um í bæjarstjórn auk þess sem afturköllun samninga sem bæjarstjórn hefur þegar samþykkt myndi án vafa leiða til skaðabótaskyldu fyrir bæjarsjóð. „Hér er tekin ákvörðun um að Reykjanesbær muni standa við gerða samninga um uppbyggingu Thorsil í Helguvík og óundirritaðri kröfu frá 12. maí um bindandi íbúakosningu er hafnað af bæjarráði. Erfitt er því að átta sig á því til hvers undirskrifasöfnunin er haldin,“ sögðu þeir Árni og Böðvar í bókun.

Guðbrandur Einarsson oddviti Beinnar leiðar, eins af þremur meirihlutaflokkum bæjarstjórnar segir að niðurstaða úr undirskriftasöfnun geti leitt til íbúakosningar sem hins vegar sé ekki bindandi fyrir bæjarstjórn. Guðbrandur segir að málið sé komið allt of langt til að stoppa það. Stöðvun gæti þýtt milljarða skaðabætur fyrir bæjarfélagið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarfélagið mun eftir samþykkt í bæjarráði sl. fimmtudag koma að undirskriftasöfnuninni og aðstoða við framkvæmd hennar. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri skrifaði um málið á Facebook síðu sinni og sagði: „Allt það ferli er nýtt fyrir okkur og mun taka bæði langan tíma og kosta sveitarfélagið talsvert vegna útgjalda tengdum undirbúningi og kynningum svo ekki sé minnst á hugsanlegar skaðabætur ef til þeirra kæmi.“

Vitað er að öruggur meirihluti er fyrir samþykki deiliskipulagsins í bæjarstjórn þó ekki sé vissa fyrir því að allir bæjarfulltrúar meirihlutans muni gefa því atkvæði á bæjarstjórnarfundi 2. júní nk. Sjálfstæðismenn munu greiða málinu atkvæði sem gulltryggir framgöngu þess í bæjarstjórn og þannig tryggja meirihluta um það með hinum flokkunum, þó svo að þar séu ekki allir sáttir með málið og einhverjir þeirra muni hugsanlega greiða atkvæði gegn því eða sitja hjá.