Reykjanesbær og BT starfa saman að umhverfismálum í Reykjanesbæ
- Bíla-ruslapokar afhentir á íbúafundi með bæjarstjóra.
Í upphafi fyrsta íbúafundar bæjarstjóra sem haldinn var í Akurskólaþriðjudagskvöldið 13. maí sl. færði verslunarstjóri BT í Reykjanesbæ, Haukur Þór Arnarson, Árna Sigfússyni bæjarstjóra fyrsta bíla-ruslapokann sem fyrirtækið hefur framleitt sem er hluti af sameiginlegu umhverfisverkefni Reykjanesbæjar og BT.
Í verkefninu tóku þátt nemendur í grunnskólum Reykjanesbæjar en verðlaunatillögur þeirra verða kynntar víðs vegar um bæinn. Í verkunum kemur fram áskorun til bæjarbúa um að ganga betur um bæinn og lagði BT til verðlaun fyrir þá nemendur sem sendu inn bestu tillögurnar.
BT hefur prentað verðlaunatillögurnar, myndir og slagorð á plastpokana, auglýsingastand við Aðalgötu og Fitjar til áminningar um verkefnið og til að hvetja bæjarbúa til dáða í góðri umgengni.
Á næstu vikum og mánuðum munu bæjarbúar verða varir við aukinn áróður og hvatningu til meiri og betri umhverfisvitundar.