Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Reykjanesbær: Niðurgreiðsla lána um tæpar 800 milljónir frá 2002
Miðvikudagur 8. febrúar 2006 kl. 14:08

Reykjanesbær: Niðurgreiðsla lána um tæpar 800 milljónir frá 2002

Staða langtímalána hjá Reykjanesbæ lækkaði úr 3,9 milljörðum í upphafi árs 2002 í 2,6 milljarða í lok árs 2004. Þetta kom fram í svari Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, við fyrirspurn Guðbrands Einarssonar, Samfylkingu, á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag.

Í upphafi árs 2002 skuldaði bærinn 3.955 milljónir og árið eftir voru greiddar niður skuldir að andvirði 1.741 milljóna. Þar komu inn fjármunir eftir yfirfærslur fasteigna bæjarins í Fasteign hf. sem notaðir voru að hluta til að greiða niður skuldir.

Samkvæmt áætlunum fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir að skuldir aukist um 23 milljónir króna frá árinu áður og séu því 2.673.632.000 kr.

Lántökur á árunum 2002 til 2005 eru alls um 2,7 milljarðar en afborganir lána eru um 3,5 milljarðar og er niðurgreiðsla lána á tímabilinu því tæpar 800 milljónum. Verðbætur og gengismunur á sama tíma nema tæpum 500 milljónum.

Í svari Árna kemur einnig fram að ef litið er á þróun eigna bæjarsjóðs umfram skuldir hafa þær lækkað úr 3,8 milljörðum í 3,5 milljarða á umræddu árabili. Eignir samstæðu umfram skuldar hafa hækkað úr 3 milljörðum í 3,5 milljarða.

Í andsvari sínu sagðist Guðbrandur mundu fara vel yfir tölurnar og gera frekari athugasemdir síðar. Hann og samflokksmaður hans Ólafur Thordersen lýstu því hins vegar yfir óánægju sinni með að ekki hefði allt andvirði þeirra eigna sem voru færðar yfir til Fasteignar hf. farið í að greiða upp skuldir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024