Reykjanesbær: Meiri sparnaður til lengri tíma litið
Umræða um hagræðingu og sparnað vegna fækkunar sviða og framkvæmdastjóra Reykjanesbæjar.
Sparnaður Reykjanesbæjar vegna fækkunar sviða og framkvæmdastjóra nemur um 75 milljónum króna á fimm árum en um 130 milljónum króna til 7 ára. Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi (D) lagði fram fyrirspurn á bæjarstjórnarfundi 3. feb. sl. og spurði hversu mikil hagræðingin mikil á næstu árum.
Böðvar spurði um fjárhagslegan ávinning og heildarsparnað sveitarfélagsins vegna þessara aðgerða næstu 3 árin. Svarið var tæpar 20 milljónir króna og sagði Böðvar á bæjarstjórnarfundi í vikunni að það væri ekki mikill ávinningur. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri sagði að ávinningurinn yrði mun meiri til lengri tíma litið og nefndi sparnaðinn sem yrði eftir 5 og 7 ár, 75 og 130 millj. kr. Hann sagði að hagræðingin kæmi ekki strax í ljós vegna ýmissa réttinda starfsmanna, biðlaunaréttir og slíkt. Böðvar spurði m.a. um biðlaunaréttindi og fleira hjá framkvæmdastjórunum sem sagt var upp. Fimm þeirra eru með 12 mánaða biðlaunarétt og tveir með sex mánuði.
Þær breytingar sem standa yfir á stjórnskipulagi Reykjanesbæjar hafa það að leiðarljósi að efla starfsemina og styrkja form og virkni miðlægrar þjónustu þvert á fagsvið bæjarins, fækka sviðum og móta öflugra embættismannakerfi. Fækkun sviða sé einn þáttur í að auka skilvirkni starfsemi bæjarins, segir m.a. í svari bæjarstjóra til Böðvars.