Reykjanesbær kemur til móts við foreldra
Reykjanesbær mun greiða hærra hlutfall en áður í skólamáltíðum en eins og greint var frá nýlega varð um fjórðungs hækkun á máltíðum eftir útboð. Bæjaráð lagði fram tillögu þess efnis á síðasta fundi þess.
„Reykjanesbær hefur til margra ára verið með eitt lægsta matarverð á landinu til barna á grunnskólaaldri. Lengi vel hefur kostnaðarskiptingin verið 70/30, þ.e. foreldrar hafa greitt 70% af kostnaði við skólamat barna sinna.
Nú er svo komið að verð og laun hafa hækkað og því hefur framleiðslukostnaður aukist verulega frá því sem áður var. Hækkun á skólamat án inngrips væri um 27% eftir útboð.
Bæjarráð Reykjanesbæjar leggur því til að auka kostnaðarhlut bæjaryfirvalda til að verja hag foreldra og barna. Frá og með 1. september verður kostnaðarskiptingin því 61/39 og verð á skólamat því 499 kr. á dag í stað 575 kr. án niðurgreiðslu sveitarfélagsins.
Heildarkostnaður Reykjanesbæjar vegna þessa er áætlaður um 50 milljónir króna á ársgrundvelli.‘‘