Reykjanesbær íhugi að segja sig úr samstarfi við hin sveitarfélögin
Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi A-listans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, vill að fundinn verði nýr flötur á samstarfi sveitarfélaganna í SSS. Að öðrum kosti leiti Reykjanesbær leiða til að sjá sjálfur um allan sinn rekstur enda hafi hann alla burði til þess að standa utan við samstarfið.
Þetta kom fram í máli Guðbrands á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ nú í vikunni. Þar var til umfjöllunar fundargerð bæjarráðs sem hefur falið bæjarstjóra að kanna möguleikann á því að Reykjanesbær dragi sig út úr Kölku eða yfirtaki rekstur hennar.
Breytingar á rekstrarformi Kölku eru í uppnámi þar sem Grindavíkurbær vill ekki fallast á stórnskipan út frá eignaraðild sveitarfélaganna. Bæjarráð Reykjanesbæjar vill ekki sæta minnihlutastöðu í félaginu og hefur lýst yfir vonbrigðum með afstöðu bæjarstjórnar Grindavíkur.
„Reykjanesbær hefur alla burði til að standa eitt og sér og getur í krafti stærðar haldið utan um alla þá þjónustuþætti sem honum er skylt að veita sínum íbúum. Auðvitað getur Reykjanesbær haldið áfram í samstarfi, kjósi fulltrúar hans svo. Það verður þá að vera á einhvers konar jafnræðisgrundvelli þar sem jafnræði er á þeim útgjöldum sem Reykjanesbæ verður fyrir og eins við það borð þar sem ákvarðanir eru teknar. Ég held að við séum öll sammála um að slíkt jafnræði hefur ekki verið fyrir hendi,“ sagði Guðbrandur.
Guðbrandur sagði að við stjórnarskipan í SSS væri ekki verið að horfa í fjölda íbúa á bak við hvert sveitarfélag heldur ætti hvert þeirra einn fulltrúa í stjórnum. Sökum þess hefði Reykjanesbær í raun verið með minnihluta í stjórnum þrátt fyrir að vera stærsti kaupandinn að þjónustunni.
„Það kom mér svo sannarlega á óvart þegar upp kom sú skoðun bæjarstjórnar Grindavíkur að ekki væri rétt að Reykjanesbær nyti þeirrar lýðræðislegu stöðu að sitja við borðið eins og íbúafjöldinn segir til um. Þess vegna studdi ég þessa ákvöðrun í bæjarráði og tel rétt að bæjarstjórn Reykjanesbæjar fylgi henni til enda og menn finni þá einhvern nýjan flöt á samstarfi sveitarfélaginaa eða leiðir til þess að Reykjanesbær sjái sjálfur um allan sinn rekstur,“ sagði Guðbrandur.
---
Mynd/elg - Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ.