Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbær í hæsta gæðaflokki í stjórnsýslu sveitarfélaga
Miðvikudagur 9. júní 2004 kl. 13:58

Reykjanesbær í hæsta gæðaflokki í stjórnsýslu sveitarfélaga

Reykjanesbær er í efsta flokki samanburðarsveitarfélaga á heimsvísu, samkvæmt niðurstöðum Bertelsmann prófs, sem er alþjóðlegur staðall og próf sem mælir gæði í stjórnsýslu sveitarfélaga.

Þetta kom fram á kynningu Dr. Haralds Baldersheim, prófessors við Oslóarháskóla, á fundi vinabæja Reykjanesbæjar í Finnlandi s.l. fimmtudag. Að sögn Baldersheims eru vel á annað hundrað sveitarfélög þátttakendur í Bertelsmannprófinu bæði í Evrópu og N-Ameríku. Reykjanesbær er í hópi 10 efstu þessara sveitafélaga. Baldersheim nefndi að væri Reykjanesbær sveitarfélag í Svíþjóð yrði bærinn í 3. sæti samkvæmt mælikvarðanum. Ekki er vitað til að annað sveitarfélag á Íslandi en Reykjanesbær taki þátt í notkun þessara stjórnsýslumælikvarða og því þarf að sækja samanburð annað, en frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.

Algeng stigatala sveitarfélaga að sögn Haraldar Baldersheim er á milli 250-300 stig af 800 mögulegum stigum. Reykjanesbær hlaut 524 stig og væri þar með í hópi þriggja hæstu sveitarfélaga í Svíþjóð að sögn Haraldar, en Svíar héldu nýlega samkeppni á þessu sviði þar sem tugir sveitarfélaga spreyttu sig á hinu alþjóðlega prófi. Að sögn Haraldar eru Svíar mjög framarlega á þessu sviði og því er árangur Reykjanesbæjar enn athyglisverðari. Trollhattan í Svíþjóð trjónir á toppnum með 647 stig en bærinn er vinabær Reykjanesbæjar og hafa þeir fylgst að við framkvæmd þessa verkefnis auk þriggja annarra vinabæja á Norðurlöndunum.

„Þetta eru auðvitað mjög ánægjuleg tíðindi og uppörvandi fyrir okkur sem störfum hér að opinberri stjórnsýslu“, segir Árni Sigfússon bæjarstjóri. „Við höfum markvisst unnið að því að bæta þjónustu við íbúana og hljótum að vera stolt af því að vera í hópi sveitarfélaga í heiminum sem fá hæstu einkunn á þessum alþjóðlega mælikvarða. Við vinnum að umbótum á mörgum öðrum sviðum sem ekki eru mæld í þessum viðmiðunum. Þessar upplýsingar hvetja okkur til dáða. Við vitum þó að við getum gert betur og það skiptir mestu máli að vinna stöðugt að umbótum.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024