Reykjanesbær hyggst ganga út úr rekstri sorpeyðingarstöðvarinnar
Reykjanesbær mun ganga út úr rekstri Kölku (Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf) takist stjórn félagsins ekki að finna rekstrinum þann farveg sem bæjaryfirvöld telja ásættanlegan. Tillaga þess efnis var lögð fram á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær af Böðvari Jónssyni, bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna.
Í greinargerð með tillögunni segir eftirfarandi:
„Í júní 2008 var lögð fram tillaga af hálfu stjórnar SS sem samþykkt var í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum um að stofna hlutafélag utan um rekstur Sorpeyðingarstöðvarinnar og átti félagið að taka við rekstri stöðvarinnar um áramótin 2008/2009. Samþykkt þessi var forsenda þess að Reykjanesbær lagði um 130 milljónir króna fram til reksturs stöðvarinnar á síðasta ári en greiðsla upphæðarinnar var háð því skilyrði að búið væri að ná samstöðu um rekstrarform til framtíðar. Í ágúst 2008 var þessi ákvörðun staðfest á aðalfundi Kölku. Þrátt fyrir ítrekaða eftirfylgni af hálfu Reykjanesbæjar hefur ákvörðuninni ekki verið hrint í framkvæmd.
Bókfært eigið fé SS sf. er nú neikvætt um tæplega 500 milljónir króna, rekstur félagsins skilar tapi upp á tugi milljóna á hverju ári og fáar eða engar tillögur eru uppi um hvað gera skuli til þess að bregðast við. Áframhald á slíkum rekstri í óbreyttri mynd er ábyrgðarhluti af hálfu eigenda.
Á aðalfundi félagsins þann 26.ágúst s.l. var samþykkt tillaga þess efnis að leita eftir samstarfi eða sameiningu við önnur sveitarfélög og/eða aðila á almennum markaði um rekstur stöðvarinnar. Tillagan var málamiðlun tveggja tillöguflytjenda á fundinum þar sem skýrt kom fram í umræðum að bæði skyldi leita samstarfs meðal opinberra aðila sem og aðila á almennum markaði. Til þess verkefnis skyldi stjórnin hafa u.þ.b. 3 mánuði.
Á stjórnarfundi Kölku þann 10.september 2009 er bókað í fundargerð að stjórn félagsins hafi ákveðið að leita samstarfs við önnur sveitarfélög eða sorpsamlög en virðir um leið að vettugi þá samþykkt aðalfundarins að kanna möguleika á samstarfi meðal fyrirtækja á almennum markaði.
Þar sem stjórn félagsins gengur enn og aftur gegn eðlilegum og lýðræðislega teknum ákvörðunum aðalfundar Kölku og sveitarstjórna á Suðurnesjum segir Reykjanesbær, með 6 mánaða fyrirvara, upp samstarfi um rekstur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. sem stofnað var til með stofnsamningi þann 27.nóvember 1978.
Takist stjórn félagsins að finna rekstrinum nýjan farveg sem Bæjarstjórn Reykjanesbæjar telur ásættanlegan innan þeirra 6 mánaða sem uppsagnarfresturinn tekur verður ákvörðunin dregin til baka. Að öðrum kosti mun innlausn verða krafist þegar 6 mánuðir eru liðnir frá uppsögn þessari.“