Reykjanesbær hlýtur vottun um aðgengi fyrir fatlaða á vefnum
Öryrkjabandalag Íslands og ráðgjafafyrirtækið Sjá ehf. munu í dag votta að vefur Reykjanesbæjar stenst kröfur um aðgengi fyrir fatlaða fyrst allra sveitarfélaga. Vottunin felur í sér að allir hafa aðgang að efni vefsins og geta nýtt sér það, óháð fötlun eða getu.
Reykjanesbær leggur áherslu á að allir íbúar hafi greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem sveitarfélögin veita og á það einnig við um upplýsingavefinn. Með aðgangsúttektinni eiga fatlaðir nú auðvelt með að nálgast upplýsingar á vef bæjarins sem hefur mikla þýðingu en sá hópur á oft erfiðara með að fara á milli staða og getur því nýtt sér rafræna þjónustu í auknum mæli. Einnig mun aðgangsúttektin nýtast öðrum hópum s.s. öldruðum.
Vefurinn er prófaður eftir sérstökum gátlista sem byggir á alþjóðlegum staðli og hefur Sjá ehf. aðlagað listann að íslenskum aðstæðum og uppfært hann samkvæmt ábendingum. Listinn hefur meðal annars verið prófaður með þarfir lesblindra, heyrnarlausra, hreyfihamlaðra, blindra og alvarlega sjónskertra í huga. Fatlaðir geta notað vefinn með aðstoð hjálpartækja á borð við skjálesara, talgervil og sérhönnuð lyklaborð.
Samstarf Öryrkjabandalagsins og Sjá miðar að því að gera sem flesta íslenska vefi aðgengilega öllum en víða í nágrannalöndum hefur verið fest í lög að vefsíður opinberra stofnana og fyrirtækja skuli vera aðgengilegar öllum notendum. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það mark að auka aðgengi að upplýsingum og eru fatlaðir sérstaklega teknir þar sem dæmi.
Mynd - Skjámynd af vef Reykjanesbæjar