Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbær hefur undirritað samning við Tölvumiðlun
Miðvikudagur 18. apríl 2012 kl. 10:14

Reykjanesbær hefur undirritað samning við Tölvumiðlun

- um innleiðingu H3 heildarlausnar í mannauðsmálum.

Hjá Reykjanesbæ starfar afar fjölbreytt flóra 700 starfsmanna við ýmiss konar þjónustu s.s. í skólum, íþróttamannvirkjum, löggæslu, hafnarstarfsemi, söfnum, heilbrigðis- og ferðaþjónustu. Starfsþróunarsvið bæjarfélagsins mun nota H3 til að halda utan um öll mannauðsmál starfsmanna frá upphafi starfs til starfsloka s.s. starfsumsóknir, ráðningar, starfslýsingar, starfsmannasamtöl,fræðslu og símenntun.



Að sögn Guðrúnar Þorsteinsdóttur starfsþróunarstjóra mun H3 nýtast vel til að halda utan um fjölbreytta starfsemi Starfsþróunarsviðs Reykjanesbæjar; hraða og samræma vinnuferli og auðvelda þátttöku stjórnenda í mannauðsmálum.

Guðrún var kveikjan að því að H3 varð fyrir valinu sem mannauðskerfi. Hún segir kerfið uppfylla allar kröfur sveitarfélagsins. „Kerfið er mjög einfalt í notkun og við áætlum að það komi til með að spara starfsþróunarsviði og stjórnendum bæjarfélagsins margra daga vinnu við ráðningaferlið á álagstímum, enda hleypur fjöldi starfsumsókna á hundruðum, sérstaklega yfir sumartímann.“

Með tilkomu H3 verður auðvelt að halda faglega utan um allar umsóknir, greina, svara og ráða. Ráðnir einstaklingar flytjast rafrænt inn í aðrar einingar í H3 og sem kemur í veg fyrir tvískráningar og minnkar handavinnu. Þá hjálpar kerfið til við að auka gæði og hagræði á öðrum sviðum svo sem í fræðslu og utanumhaldi á mikilvægum upplýsingum, ásamt því að veita stjórnendum bæjarins upplýsingar um sína starfsmenn. Undir þetta tekur Þórey Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Reykjanesbæjar sem telur kerfið komi til með að skila miklum tímasparnaði ásamt því að auka þjónustu við bæjarbúa og starfsfólk sveitarfélagsins til muna.

Í tilkynningu segir Art Schalk, sölu- og markaðsstjóri Tölvumiðlunar, um 400 íslensk fyrirtæki nota H3 lausnina, þar á meðal um 35 sveitarfélög. „Við erum afar ánægð með samninginn því Reykjanesbær er á meðal stærstu sveitarfélaga landsins og erum við sannfærð um að H3 muni skapa mikið hagræði í mannauðsmálum sveitarfélagsins.“

Fram kemur að Tölvumiðlun er eitt elsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins, stofnað árið 1985. Hjá Tölvumiðlun starfar samhentur hópur sérfræðinga sem þjónustar mörg hundruð ánægða notendur H3 heildarlausnarinnar, SFS fjárhagskerfisins auk annarra hugbúnaðarkerfa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024