Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbær hættir sjálfvirkum niðurgreiðslum til dagforeldra
Miðvikudagur 29. desember 2004 kl. 17:07

Reykjanesbær hættir sjálfvirkum niðurgreiðslum til dagforeldra

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur ákveðið að hætta sjálfvirkum niðurgreiðslum vegna dagvistunar barna í heimahúsum og var gert ráð fyrir að frá og með 1. janúar 2005 væru niðurgreiðslur teknar út úr gjaldskrá Reykjanesbæjar. Í morgun var gildistöku hækkananna hins vegar frestað til 1. mars.
Verða foreldrar því að greiða fullt gjald til dagmæðra nema einstæðir foreldrar með laun undir 100.000 kr. á mánuði eða par með 200.000 samanlagt sem geta sótt um niðurgreiðslu á grundvelli tekna.

Gert er ráð fyrir að spara um 4 milljónir króna á ársgrundvelli með þessum aðgerðum. Útgjöldin fari úr 10 milljónum niður í 6 milljónir.

Ákvörðunin olli miklum kurr meðal foreldra og dagmæðra í bænum og var boðað til fundar með bæjarstjóra, Árna Sigfússyni. Fjölmennt var við skrifstofur Reykjanesbæjar þar sem foreldrar og dagmæður lýstu óánægju sinni við bæjarstjóra.

Þá sendu samtök dagmæðra í Reykjanesbæ skrifleg mótmæli til bæjarstjórnar og félagsmálstjóra. Þar lýsa þær yfir furðu með framkvæmd ákvörðunar en dagmæðrum var gert að tilkynna foreldrum um þessa ákvörðun sem átti að koma til framkvæmda nú um áramót.

„Fengum engin svör.“
Guðný Sigríður Jónsdóttir, formaður Samtaka dagmæðra í Reykjanesbæ, segir frestun gildistökunnar ekki breyta miklu. „Það breytir engu fyrir foreldra að mínu mati. Þau verða kannski mánuði lengur en þau sem ætla að hætta munu hætta.“

Guðný segir þetta fyrirkomulag eiga eftir að hafa mikil áhrif á stétt dagmæðra fyrir utan þá skerðingu sem foreldrar verða fyrir. „Það verða margar dagmæður sem missa sín börn og maður er ekki í þessari vinnu fyrir þrjú börn eða tvö börn. Þú getur alveg eins hætt og farið að vinna við eitthvað annað.“

Þá var Guðný ekki allskostar sátt við svörin sem fundargestir fengu hjá bæjarstjóra. „Mér fannst hann í raun ekki gefa okkur nein svör nema það að málið yrði skoðað á fundi bæjarstjórnar. Við fengum engin svör nema þau að hálftíma fyrir þennan fund fengum við þær fréttir að þetta skyldi gerast fyrsta mars en ekki fyrsta janúar.“

Hún sagði að lokum að þrátt fyrir að einhver hluti foreldra muni fá niðurgreiðslu sé það einungis lítill hluti þeirra. „Ég vona bara að yfirvöld taki það til greina að foreldrar eru ekki sáttir og breyti þessu.“

Spurning um forgangsröðun
Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri Reykjanesbæjar, segist skilja gremju foreldra og dagmæðra en nauðsynlegt hafi verið að hagræða í rekstri bæjarins. Hún hafi átt von á viðbrögðum, en þetta væri spurning um forgangsröðun. Með þessu væri verið að mæta þeim sem hafa minna á milli handanna.

„Maður skilur alltaf að allar aðgerðir sem hvort sem það hefur áhrif á fólk fjárhagslega eða persónulega snerta við fólki og alar breytingar hafa tilhneigingu til að setja fólk úr jafnvægi.“

Hjördís sagði aðgerðirnar vera hluta af niðurskurði sem snerti öll svið reksturs hjá Reykjanesbæ. Yfirvöld reyni á hverju ári að hagræða og athuga hvað má skoða betur. Eins og áður hefur komið fram var bæjarsjóður Reykjanesbæjar rekinn með halla sem nam hundruðum milljóna.

„Ég tel sjálf að þetta hafi verið skynsamlegasta leiðin sem hægt var að fara miðað við það sem við stóðum frammi fyrir,“ segir Hjördís.  „Við urðum að finna leiðir til að hagræða, en með þessu er verið að mæta þeim sem minna hafa og félagsþjónustan hlýtur að ganga út á. Við erum þokkalega sátt við þessar aðgerðir, en skiljum vel að þetta snerti pyngjuna hjá fólki.“

Undir nýja fyrikomulaginu hækka niðurgreiðslur til hinna tekjulægstu um  45% úr 11 þúsund krónum í 16 þúsund krónur á mánuði. Foreldrar með 100-150 þúsund krónur á mánuði fá 18% hækkun á niðurgreiðslum, þ.e. 13 þúsund krónur á mánuði í stað 11 þúsund króna áður og foreldrar með tekjur undir 200 þúsund krónum á mánuði fá sömu niðurgreiðslu og áður þ.e. 11 þúsund kr. á mánuði.
Til samanburðar niðurgreiðir Reykjavíkurborg  dagvistunargjöld í heimahúsum um 15.300 ef gert er ráð fyrir heils dags umönnun.

VF-myndir: Þorgils Jónsson: Árni Sigfússon svaraði fyrir aðgerðum bæjaryfirvalda, en viðstöddum var ansi heitt í hamsi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024