Reykjanesbær hækkar ekki grunnþjónustu barna
- Gjald í tónlistarskóla hækkar
Reykjanesbær mun ekki hækka tímagjald í leikskóla, gjöld frístundaskóla, áskriftir skólamáltíða eða sundferðir barna nú um áramót. Flestar hækkanir á gjaldskrá Reykjnesbæjar árið 2016 eru samkvæmt hækkun vísitölu, samkvæmt því er fram kemur á vef bæjarfélagsins.
Stærstu breytingarnar í gjaldskrá Reykjanesbæjar árið 2016 er gjaldtaka í Duus safnahús sem verður í samræmi við aðgangseyri Rokksafns Íslands, það er 1500 krónur fyrir almenning, 1200 fyrir eldri borgara og öryrkja og frítt fyrir börn 16 ára og yngri í fylgd með fullorðnum. Frá áramótum þarf að greiða sérstakt gjald fyrir heimsenda máltíð, gjaldtaka heimaþjónustu er nú tekjutengd og stakur miði í sund hækkar um 150 krónur, fer úr 550 krónum í 700 krónur. Gjöld í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hækka umfram vísitölu til að nálgast gjaldtöku annarra sveitarfélaga. Aðrar hækkanir eru samkvæmt þróun vísitölu. Fasteignagjöld og útsvarsprósenta verða óbreytt.