Reykjanesbær fær 1,5 milljarð fyrir sölu á 15% hlut í HS Veitum
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í vikunni að selja 15% hlut bæjarins í HS Veitum að verðmæti um 1,5 milljarð króna. Fulltrúar Samfylkingarinnar greiddu atkvæði á móti. Fulltrúi Framsóknar greiddi atkvæði með tillögunni. Reykjanesbær á 51% í HS Veitum eftir þessa sölu.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri sagði að þessir peningar yrðu notaðir til að greiða niður skuldir. Salan væri hagstæð fyrir Reykjanesbæ því áfram héldi hann meirihluta í félaginu sem væri mikilvægt. Kaupandi er fjárfestingafélagið Úrsus.
Fulltrúar Samfylkingar voru ósáttir við þennan gjörning og bókuðu á bæjarstjórnarfundi s.l. þriðjudag að með sölunni á hlutnum fylgi hluthafasamkomulag sem takmarka muni meirihlutavald Reykjanesbæjar verulega. „Á undanförnum árum hefur hlutur Reykjanesbæjar í fyrirtækjunum HS-veitum og HS-orku, fyrrum Hitaveitu Suðurnesja, farið síminnkandi vegna sölustefnu meirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ. Markvisst hefur verið unnið að því að færa þessi mikilvægu undirstöðufyrirtæki úr almannaeigu í einkaeign.
Við erum nú, sem fyrr, mótfallin sölu hlutar Reykjanesbæjar í HS-veitum og greiðum atkvæði gegn fyrirliggjandi kaupsamningi,“ segir í bókuninni.
Nokkur umræða varð á bæjarstjórnarfundinum um þetta mál þar sem fulltrúar Samfylkingar fóru nokkuð mikinn í því að bæjarfélagið myndi ekki halda sömu völdum með þessari sölu því vald stjórnar HS Veitna myndi færast yfir til hluthafafundar. Böðvar Jónsson, forseti bæjarstjórnar, sagði þessa breytingu litlu skipta og alls ekki vera takmörkun á valdi.