Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reykjanesbær er í verulegum vandræðum - segir oddviti Samfylkingarinnar
Miðvikudagur 4. maí 2011 kl. 10:48

Reykjanesbær er í verulegum vandræðum - segir oddviti Samfylkingarinnar

„ Samantekt á helstu niðurstöðum ársreiknings Reykjanesbæjar fyrir árið 2010 sýnir svo að ekki verður um villst að Reykjanesbær, þrátt fyrir yfirlýsingar meirihlutans í fjölmiðlum, er í verulegum vandræðum með að standa undir skuldbindingum bæði hjá bæjarsjóði og b hluta fyrirtækjum,“ sagði Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingar á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær. Þá fór fram aukaumræða um ársreikning bæjarfélagsins að ósk minnihlutans. Seinni umræða og afgreiðsla reikningsins verður á næsta bæjarstjórnarfundi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ljóst er að með niðurskurði í flestum málaflokkum, lækkun starfshlutfalls starfsmanna og miklu aðhaldi í rekstri síðari hluta ársins 2010 hefur tekist að draga úr rekstrarhalla bæjarsjóðs og skilar bæjarsjóður hagnaði fyrir fjármagnsliði sem er mikil breyting frá fyrri árum. Hér er um rúmlega 350 milljónir að ræða sem því miður er langt frá því að vera nægjanlegt til framtíðar til að standa undir skuldbindingum bæjarsjóðs.
Þegar rekstur eftir fjármagnsliði er skoðaður betur kemur í ljós að gengishagnaður skilar rúmlega 1 milljarði í hagnað, sem kemur að mestu leiti vegna lækkunar á gengi og því er bókfærður hagnaður svo hár sem þessu nemur, eða um rúmlega 639 milljónir.
Bókfærður hagnaður eru ekki peningar í kassann og er því miður varhugaverð tala til að auglýsa en gengishagnaður sveiflast mikið á milli ára og gefur oftast villandi upplýsingar um rekstur bæjarsjóðs,“ sagði Friðjón.

Friðjón sagði að þegar kennitölur Reykjanesbæjar eru skoðaðar koma fleiri og verri hlutir í ljós. Eigið fé stæði í stað, skammtímaskuldir aukast þó langtímaskuldir minnkuðu en hlutfall skulda miðað við tekjur væri óbreytt, eða 395%, en eins og kunnugt er miðar Eftirlitnefnd sveitarfélaga við að æskilegt væri að þessi tala fari á endanum í 150%.
„Við vitum reyndar að Reykjanesbær á í erfileikum í daglegum rekstri og hefur dregið greiðslur í nokkra mánuði vegna skorts á lausafé sem er að sjálfsögðu grafalvarlegt.

Að venju geri endurskoðandi Reykjanesbæjar athugasemdir við ársreikninginn. Þessar athugasemdir eru alvarlegar ábendingar og er öllum bæjarfulltrúum hollt að kynna sér þessar ábendingar vel því ábyrgð okkar er mikil og ljóst að hér verðum við að vanda til verka. Það hefði verið betur ef að bæjarfulltrúar hefðu hlustað betur á endurskoðendur hér í bær í gegnum tíðina. Reykjanesbær væri kannski þá í ögn betri málum“.

Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs sagði að reikningurinn væri 28 blaðsíður og það væru bæði jákvæðir þættir og neikvæðir í honum. Minnihlutinn benti auðvitað á það neikvæða en meirihlutinn á það jákvæða. Það væri vaninn í bæjarstjórn. Staðreyndin væri þó sú að margt jákvætt væri í rekstrinum sem sýndi hagnað sem hefði náðst með hagræðingu og samheldni starfsmenna og stjórnenda. Bæjarfélagið ætti margar eignir og nefndi þar m.a. skuldabréf Magma Energy sem væri tengt álverði en það hefði hækkað mikið. Sala eigna myndi fara til að greiða niður skuldir en rekstur myndi áfram skila hagnaði.

Margir bæjarfulltrúar lofuðu störf starfsmanna bæjarins á erfiðum tímum og þökkuðu þeim fyrir góða frammistöðu.

VF-mynd: Friðjón í ræðustól á bæjarstjórnarfundi.