Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Reykjanesbær eignast jarðhitaréttindi
Mánudagur 29. júní 2009 kl. 14:31

Reykjanesbær eignast jarðhitaréttindi

- Tekjur bæjarins af auðlindagjaldi nema yfir 50 milljónum kr. á ári

Reykjanesbær og Geysir Green Energy eru nú í viðræðum um kaup bæjarins á landareignum og auðlindum HS Orku á Reykjanesi til að tryggja að auðlindin verði í opinberri eigu. Gangi samningar eftir munu tekjur bæjarins af auðlindagjaldi nema yfir 50 milljónum króna á ári og fara vaxandi.  Áform þessi voru kynnt á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar í gær, segir í tilkynningu til fjölmiðla.

Verðmæti 32% hlutar í HS Veitum, sem bærinn kaupir af Geysi eru rúmir 4 milljarðar króna auk þess sem RNB kaupir landareignir og auðlindir af HS Orku  á 840 milljónir. Reykjanesbær selur nær allan sinn hlut í HS Orku til Geysis á 13 milljarða króna og losar því umtalsvert fé. Til að fjármagna kaupin og til að standa straum af frekari uppbyggingu HS Orku hefur Geysir fengið til liðs við sig erlent þróunarfélag á sviði endurnýjanlegrar orku, sem mun kaupa 10,8% af hlut Geysis í HS Orku. Samstarf Geysis og erlenda orkufélagsins tryggir meirihlutaeign Geysis í HS Orku en stefnt er að því að auka hlutafé þar á næstunni.

Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ fagnar því að nú sé hafið ferli sem unnið hafi verið að undanfarin misseri og sem meðal annars fól í sér uppskiptingu Hitaveitu Suðurnesja í tvö sjálfstæð fyrirtæki. „Við erum afar ánægð með að ef samningar nást höfum við tryggt að jarðhitaréttindin og landið sé áfram í eigu almennings og að notkun auðlindarinnar skapi bæjarfélaginu tekjur um ókomin ár.“

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy segir að ef áformin gangi eftir sé um að ræða mikilvægt skref fyrir Geysi. „Geysir væri með því að tryggja sér meirihlutaeign í HS Orku sem við höfum stefnt að. Við munum í framhaldinu vinna að því að auka hlutafé félagsins og styðja þannig við fyrirhugaðar framkvæmdir vegna byggingar álvers í Helguvík og annarrar uppbyggingar íslensks samfélags með þróun vistvænnar orkuvinnslu.“


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

(Fréttatilkynning).